Árið 2011 fannst Ellen Greenberg látin á heimili sínu í Philadelphiu með tuttugu stungusár víðs vegar um líkamann. Slíkt bendir gjarnan til þess að saknæm háttsemi hafi átt sér stað en fyrir einhverjar sakir var andlát Greenberg úrskurðað sem sjálfsvíg.
Fjölskylda Greenberg hefur allar götur síðan barist fyrir því að mál hennar verði tekið upp aftur. Það liggi í augum uppi að Greenberg veitti sér ekki þessi sár, en mörg stungusárin voru aftan á hálsi hennar. Réttarmeinafræðingurinn sem kom að rannsókn málsins taldi fyrst að um morð hefði verið að ræða. Svo skipti hann um skoðun eftir mótbárur frá lögreglu og úrskurðaði að Greenberg hefði fallið fyrir eigin hendi. Hann gaf þó engar haldbærar skýringar á þeirri niðurstöðu.
Það var unnist Greenberg sem kom að henni látinni á sameiginlegu heimili hennar. Sam Goldberg hringdi í neyðarlínuna og óskaði eftir sjúkrabíl. Hann sagðist hafa komið að unnustu sinni liggjandi í blóði sínu. Goldberg sagði: „Guð minn góður, hún hefur stingið sig. Hún hefur fallið á hníf, ég er ekki viss en hnífurinn stendur út. Það er hnífur sem stendur út úr hjarta hennar“.
Rannsóknarlögreglumennirnir sem komu á vettvang komust strax að þeirri niðurstöðu að Greenberg hefði unnið sjálfri sér mein. Byggðu þeir það mat á því að Goldberg var samstarfsfús og hafði ekki reynt að flýja. Eins voru engin merki um innbrot og að sögn Goldberg hafði íbúðin verið læst. Þessu til stuðnings nefndi lögregla í skýrslu sinni að Goldberg hafi kallað til húsvörð til að vera viðstaddur þegar hann braut sér leið inn í læsta íbúðina. Lögreglumenn voru svo vissir í sinni sök að þeir létu ekki einu sinni framkvæma vettvangsrannsókn.
Tíu stungusáranna voru aftan á hálsi Greenberg. Átta þeirra voru á brjóstkassa hennar, eitt á maga hennar og eitt á höfðinu. Hún var eins með mikið af marblettum.
Síðar kom á daginn að húsvörðurinn var alls ekki viðstaddur og líklegt þykir að Greenberg hafi verið stungin tvisvar eftir að hún var látin, en látið fólk er ólíklegt til að veita sjálfu sér áverka.
Mörg ár eru nú liðin þar sem ítrekað hefur verið skorað á lögreglu og yfirvöld að taka málið upp að nýju. Nú loks hafa orðið vendingar en réttarmeinafræðingurinn áðurnefndi, Marlon Osbourne, hefur aftur skipt um skoðun. Hann skrifaði undir yfirlýsingu fyrir helgi þar sem hann sagðist ekki lengur standa í þeirri trú að Greenberg hafi fallið fyrir eigin endi.
Foreldrar Greenberg hafa staðið í málaferlum við yfirvöld í Philadelphia og talsmaður borgarinnar greindi frá því á dögunum að sátt hefði náðst í málinu. Foreldrar Greenberg fá greiddar ótilgreindar miskabætur en borgin hefur þó ekki játað sök í málinu. Eins hefur borgin fallist á að rannsókn málsins verði opnuð að nýju.
„Við erum mjög spennt. Ekki í mínum villtustu draumum hefði ég trúað því að þetta myndi gerast,“ sagði móðir Greenberg í samtali við CNN. Foreldrar Greenberg hafa barist ötullega fyrir réttlæti í máli dóttur sinnar og meðal annars fengið fjölda réttarmeinafræðinga til að leggja mat á málið. Einn þeirra benti á að margt benti til þess að lík Greenberg hefði verið fært til eftir að hún var látin. Eins mætti finna áverka á hálsi hennar sem bentu til kyrkingartaks.
Það hefur eins vakið athygli að Goldberg, unnusti Greenberg, hefur í rúman áratug barist gegn því að mál Greenberg verði aftur tekið til rannsóknar. Hann sagði í nóvember að barátta foreldra hennar væri „aumkunarverð og fyrirlitleg tilraun til að hafa af mér mannorðið og svipta hana friðhelgi einkalífs með því að búa til söguþráð byggðan á lygum, afbökun staðreynda og rangfærslna bara svo þau þurfi ekki að horfast í augu við raunveruleikann. Andleg veikindi eru raunverulegur sjúkdómur sem á sér mörg fórnarlömb.“
Lögmaður foreldranna segir að loksins hafi barátta þeirra borið árangur. Þetta hafi tekið um 14 ár og þau hafi varið eftirlaunaárum sínum og miklum fjármunum í leitina að réttlætinu. Þau séu uppgefin á líkama og sál og nú sé mál að linni.