Flugfarþegi nokkur ákvað að gera góðverk og skipta um sæti svo hjón gætu setið saman í fluginu. Stuttu seinna áttaði hún sig svo á að hjónin höfðu platað hana.
„Er sætiskarma eitthvað fyrirbæri?“ spurði konan á Reddit þar sem hún sagði frá atvikinu.
Sagðist hún hafa verið sest í gluggasætið sitt þegar karlmaðurinn í miðsætinu við hlið hennar bankaði á öxl hennar. Hann lét í ljós að hann talaði ekki ensku, hélt síðan upp símanum sínum með með þýðingarforriti af japönsku yfir á ensku þar sem hann spurði konuna hvort hún gæti skipt um sæti við konuna hans svo þau gætu setið saman.
Maðurinn benti síðan yfir ganginn þar sem konan hans sat í gluggasæti.
Konan sagði það lítið mál að skipta og settist í sæti konunnar við gluggann, sæti 12F. Hún dottaði svo og var vakinn af stórum og sterklegum manni sem hristi hana og sagði hana sitja í sætinu sínu. Maðurinn var nokkuð æstur og reyndi konan að útskýra að hún hefði skipt gluggasætinu sínu fyrir gluggasæti annarrar konu.
Í ljós kom að stóri maðurinn átti sæti 12F. Og japanska konan átti miðsætið en sat í röngu sæti þegar eiginmaður hennar bað um sætaskiptin.
Konan settist því í miðsætið og reyndi að ná athygli japönsku hjónanna hinu megin við ganginn en hún sagði þau algjörlega hafa hunsað sig. Konan sat því tveggja tíma flug
frá Orlando til Washington í miðsætinu og velti því fyrir sér hvort sætiskarma væri eitthvað fyrirbæri.
Notendur Reddit sýndu konunni skilning og bentu henni og öðrum um leið á aðferðir til að koma í veg fyrir svona plat í framtíðinni.
„Ef ég verð beðinn um að skipta um sæti ætla ég að biðja um brottfararspjald hins aðilans bara til að staðfesta hvar hans sæti er,“ skrifaði einn notandi.
Aðrir bentu konunni á að hún hefði átt kalla á flugþjón til að fá aftur upphaflegt sæti sitt.
„Minnstu ekki einu sinni á skiptin við hjónin. Segðu bara að sá stóri hafi bent þér á að þú ert í röngu sæti og þú þurfir að fara í þitt rétta sæti.“
„Þú varst plötuð,“ voru flestir sammála um í athugasemdum, hvort sem hjónin hefðu gert það óvart eða viljandi.