CBC fjallaði ítarlega um þetta áhugaverða mál á dögunum.
Sharon þessi fæddist í Independence í Missouri árið 1939 og var aðeins sextán ára gömul þegar hún gekk í hjónaband með eiginmanni sínum, James Kinne, árið 1956. Þau eignuðust tvö börn saman en snemma árs 1960 fannst James látinn í rúmi sínu með skotsár á höfði.
Þegar lögregla kom á vettvang lýsti Sharon því að tveggja ára dóttir hjónanna hefði verið að handleika skammbyssu þegar sot hljóp úr henni sem hæfði James í höfuðið.
Eins og fram kom í sakamálaumfjöllun DV um mál Sharon árið 2007 leysti Sharon út líftryggingu eiginmanns síns og keypti sér Thunderbird-bifreið, eins og hana hafði lengi langað í en ekki fengið að kaupa. Stofnaði hún í kjölfarið til kynna við bílasalann Walter Jones.
Í maí 1960 hringdi Sharon í annað sinn í lögregluna, því nú hafði hún fundið lík af konu á einmanalegum stíg í Jackson-sýslu. Líkið reyndist vera af Patriciu Jones, eiginkonu Walters, og hafði hún verið skotin fjórum skotum. Sharon útskýrði fyrir lögreglunni að hún hefði verið að hjálpa Walter að finna konu hans, sem hann grunaði um að hafa ætlað að hitta annan mann á þessum fáfarna stíg.
Í stað þess að finna hana í örmum annars manns höfðu þau fundið hana látna og hringdu á lögregluna. Patricia hafði verið skotin með .22 kalíbera skammbyssu og rannsóknarlögreglan komst að því að Sharon hafði fyrir ekki löngu eignast slíkt vopn. Hún hafði beðið karlmann sem vann með henni að útvega byssuna og tók sérstaklega fram að hún skyldi ekki skráð á hennar nafn. Í september 1960 var hún ákærð fyrir morðið en sýknuð þegar í ljós kom að byssan hennar var ekki morðvopnið.
Skömmu eftir að Sharon var sleppt úr haldi var hún handtekin á ný, nú fyrir morðið á eiginmanni sínum. Rannsóknarlögreglan hafði skipt út kenningunni um voðaskot fyrir mun dekkri kenningu. Sérfræðingar vitnuðu um að tveggja ára barn gæti ekki hafa tekið í gikkinn á skammbyssunni sem James var myrtur með. Sharon var fundin sek um morðið og dæmd í lífstíðarfangelsi, en hún barðist gegn dómnum með sífelldum áfrýjunum. Við þriðju réttarhöldin náðist ekki samstaða hjá kviðdómurum og ákveðið var að fjórðu réttarhöldin færu fram í október 1964. En Sharon Kinne hafði önnur áform. 14. september skráðu Sharon og Frank Puglise, nýi kærastinn hennar, sig inn á Hótel Gin í Mexíkó-borg.
Fjórum dögum síðar, eftir að hafa rifist við elskhuga sinn, rauk hún út í fússi. Hún tók Francisco Ordonez útvarpsþul á löpp og fór með honum á hans mótelherbergi. Skömmu síðar heyrði umsjónarmaður mótelsins skothvelli og flýtti sér að herbergi Ordonez og fann hann liggjandi á gólfinu með tvær kúlur í hjartastað.
Sharon stóð yfir líkinu með rjúkandi byssu og þegar umsjónarmaðurinn lagði á flótta skaut hún hann einu skoti í öxlina. Þegar lögregluna bar að slógust þau um byssuna. Starfsmenn réttarins voru ekki uppveðraðir yfir frásögn Sharon af sjálfsvörn og hún var dæmd til tíu ára fangelsisvistar að viðbættum þremur árum vegna árangurslausra áfrýjana.
Í millitíðinni fengu yfirvöld í Kansas tækifæri til að rannsaka skammbyssuna sem notuð var til að myrða Ordonez og komust að því að um var að ræða sömu byssu og notuð var við morðið á Patriciu Jones. Því biðu Sharon nýjar ákærur ef og þegar hún slyppi úr mexíkanska fangelsinu. En það kom ekki til þess því Sharon slapp úr mexíkóska fangelsinu árið 1969, eftir að hafa afplánið fimm ár í fangelsi. Þrátt fyrir mikla leit fannst Sharon aldrei, í raun ekki fyrr en eftir að hún lést í janúar 2022.
Sharon tók upp nafnið Dee Glaber þegar hún settist að í bænum Taber í Alberta árið 1973 ásamt eiginmanni sínum, Jim Glabus. Þau ráku saman Taber-mótelið og unnu einnig sem fasteignasalar í bænum. Jim lést árið 1979, 38 ára að aldri, og fékk Dee ekki krónu eftir andlát hans sem hún barðist gegn fyrir dómstólum. Nokkrum árum síðar giftist hún öðrum manni, Willie Ell, og voru þau hjón í 30 ár þar til Willie lést árið 2011, 79 ára að aldri. Ekki er vitað hvort Jim eða Willie hafi vitað um forsögu hennar.
Í umfjöllun CBC kemur fram að lögregla hafi fengið nafnlausa ábendingu eftir andlát Dee um að hún hefði í raun og veru verið Sharon Kinne. Rannsókn lögreglu hefur nú staðfest það en fingraför höfðu verið tekin af henni eftir að hún lést.
Í umfjöllun CBC er rætt við bæjarbúa í Taber og einstaklinga sem þekktu vel til Dee og er óhætt að segja að afhjúpunin hafi komið þeim á óvart. Vena Vandersteen er ein af þeim en hún var góð vinkona Dee.
„Ég á bágt með að trúa þessu og er í sjokki. Þetta er algjört rugl,“ hefur CBC eftir henni en hún og Dee, ásamt fleiri góðum vinkonum, spiluðu reglulega saman bridds. Segir Vena að Dee hafi verið snjöll í allskonar handavinnu og gert fallegar myndir með nálum og garni. Þá hafi hún einnig látið gott af sér leiða í samfélaginu og verið þekkt fyrir dásamlegt bananabrauð sem hún bakaði og gaf í matarbanka bæjarins fyrir þá sem þurftu á að halda.
Tíðindin komu annarri vinkonu einnig á óvart, Phyllis Katrusik. „Hvernig er hægt að lifa í svona lygi ár eftir ár,“ segir hún. Undir þetta tekur Vena.
„Ég segi alltaf við börnin mín: Sannleikurinn kemur alltaf í ljós. Hvað sem þú gerir í lífinu, sannleikurinn kemur alltaf upp.“