„Help“, „Traffico“ og „LAPD“ eru meðal þeirra orða sem kynda undir hinar ýmsu kenningar á samfélagsmiðlum. Orðin voru mynduð úr lofti og hægt hefur verið að sjá þau á Google Maps.
Þau sáust á svæðinu frá Cesar Chavez Ave til Mission Road og eru sögð hafa verið á þessu svæði síðan í ágúst á síðasta ári en það var ekki fyrr en í tengslum við skógareldana miklu, sem herjuðu á Los Angeles nýlega, sem fólk fór að veita þeim athygli.
Lögreglan hefur ekki tjáð sig um málið enn sem komið er og því hefur engin opinber skýring komið fram á hvaða tilgangi þessi skilaboð þjóna.
Á samfélagsmiðlum hafa margir deilt þeirri skoðun sinni að það sé heimilislaus maður, sem býr á svæðinu, sem hafi skrifað þessi orð.
Önnur nokkuð vinsæl kenning er að þetta sé ákall á hjálp frá fórnarlömbum mansals. Það þykir styðja þessa kenningu að svæðið er nærri Union Pacific sem er eitt stærsta vöruflutningafyrirtæki Bandaríkjanna. Fyrirtækið geymir mörg hundruð flutningavagna nærri svæðinu þar sem skilaboðin hafa sést.