Flest könnumst við eflaust við að fara í bíó, vera mætt á auglýstum sýningartíma en þurfa að bíða í töluverðan tíma eftir kvikmyndinni sem við komum til að sjá á meðan auglýsingar fyrir ýmsar vörur og kynningarstiklur fyrir aðrar kvikmyndir, sem væntanlegar eru í kvikmyndahúsið, eru sýndar. Fæstum hefur þó dottið í hug að gera annað í því en að í mesta lagi kvarta við kvikmyndahúsið. Ljóst er að þetta er eitthvað sem fólk út um allan heim kannast við. Einn maður á Indlandi ákvað hins vegar að kvörtun dygði ekki til og leitaði ásjár dómstóla en það átti eftir að reynast honum vel.
NBC greinir frá málinu.
Maður að nafni Abhishekh M.R. fór í kvikmyndahús í desember 2023 og keypti þrjá miða á kvikmyndina Sam Bahadur sem er indversk og fjallar um herforingjann Sam Manekshaw. Maðurinn höfðaði málið fyrir sérstökum dómstól í neytendamálum. Kvikmyndahúsið tilheyrir PVR sem er stærsta kvikmyndahúsakeðja Indlands.
Auglýstur sýningartími myndarinnar var 16:05 en hófst ekki fyrr en um 30 mínútum síðar vegna ýmis konar auglýsinga.
Abhishekh sagðist hafa orðið fyrir tjóni vegna tafanna þar sem hann hefði mælt sér mót annars staðar eftir að sýningunni átti að ljúka en vegna þessa seinagangs hafi hann misst af því.
Abhishekh krafðist andvirði 570 dollara (um 79.000 íslenskar krónur í miskabætur og 60 dollara (8.313 íslenskar krónur) vegna andlegra þjáninga.
Fyrr í þessum mánuði var honum úrskurðað í vil og sagði dómurinn kvikmyndahúsakeðjuna hafa brotið gegn honum á ósanngjarnan hátt. Kvikmyndahúsakeðjunni var uppálagt að greiða Abhishekh andvirði 320 dollara (um 44.300 krónur í miskabætur) og þar að auki þarf keðjan að greiða andvirði um 160.000 íslenskra króna í sekt.
Í niðurstöðu dómsins segir að kvikmyndahúsagestir flýti sér iðulega í kvikmyndahús til að komast á myndina á auglýstum sýningartíma og búist ekki við að sjá annað en það sem þeir hafi borgað fyrir. Dómurinn segir einnig að kvikmyndahúsið hafi brotið reglur með því að sýna langar auglýsingar í stað tilkynninga frá stjórnvöldum. Ítrekað var í dómnum að kvikmyndasýningar ættu að hefjast á auglýstum tíma.
Dómurinn segir að enginn eigi rétt á að græða á tíma og peninga annarra. Það sé allt of langur tími fyrir kvikmyndahúsagesti að sitja í hálftíma á meðan auglýsingar flæði yfir sýningartjaldið.