Fjallað er um tilfelli konunnar í nýjasta tölublaði New England Journal of Medicine.
Konan kvartaði undan einkennilegri tilfinningu í fótum sem urðu mjög viðkvæmir fyrir allri snertingu. Þá upplifði hún mikla þreytu sem hún í fyrstu rakti til ferðalagsins á milli mismunandi tímabelta.
Einkennin héldu hins vegar áfram að versna og tilfinningin í fótum færðist upp í hendur og búk og þá byrjaði hún að fá slæma höfuðverki. Hún fór á bráðamóttökuna og fundu læknar ekkert athugavert og var hún því send heim.
Kærasti hennar fór aftur með hana á bráðamóttökuna eftir hún byrjaði að sýna einkenni ruglings og var það þá sem blóðprufa leiddi í ljós hækkun á hvítum blóðkornum. Frekari rannsóknir leiddu í ljós að konan var með bólguviðbrögð í heila og mænu og mátu læknar það þannig að líklega hefði eitthvað sníkjudýr tekið sér bólfestu í konunni.
Sökudólgurinn í hennar tilfelli var sníkjudýr sem kallast „rottu lungnaormur“ (Angiostronaylus cantonensis). Var konunni gefið steralyf og var hún útskrifuð af sjúkrahúsi um viku síðar. Ekki liggur fyrir hvernig konan fékk sníkjudýrið í sig en lungnaormurinn er landlægur í Suðaustur-Asíu og í Kyrrahafi.
Eftir því sem bandaríska smitsjúkdómastofnunin CDC segir þá lifa ormarnir í lungum rotta sem geta síðan skilað lirfum þeirra út með saur. Sniglar og brekkusniglar geta sýkst ef þeir éta lifrurnar og síðan getur fólk sýkst ef það borðar hráa eða of lítið eldaða snigla eða brekkusnigla.
Fólk getur einnig smitast ef það borðar hrámeti á borð við kál, sem snigill eða brekkusnigill er á eða hluti af slíku dýri. Ferskvatnsrækjur, krabbar og froskar geta einnig smitast af lirfum og geta þær borist í fólk ef það borðar þessi dýr án þess að þau séu nægilega vel elduð.
Þegar lirfan, sem verður síðan að ormi, berst í manneskju getur hún valdið sjaldgæfri heilasýkingu en helstu einkenni hennar eru höfuðverkur, stífur hnakki, fiðringur eða sársauki í húðinni, smávegis hiti, ógleði og uppköst.