Nú hafa yfirvöld í Missouri höfðað mál á hendur kaffihúsakeðjunni Starbucks vegna fjölbreytileikastefnu hennar. Í stefnunni segir að áhersla Starbucks á fjölbreytileika, jafnrétti og þátttöku minnihlutahópa hafi valdið því að viðskiptavinir hafi þurft að borga meira fyrir kaffið sitt og að þeir hafi þurft að bíða lengur eftir því.
Segir ríkið að Starbucks hafi notað sér fjölbreytileikastefnu sína sem yfirvarp til að mismuna fólki kerfisbundið á grunni kynþáttar, kyns og kynhneigðar. Ríkið heldur því einnig fram að greiðslur til stjórnenda keðjunnar hafi verið árangurstengdar við ráðningarkvóta byggða á kynþætti og kyni umsækjenda.
Þetta hafi leitt til þess að hæfustu umsækjendunum var hafnað og það hafi síðan valdið því að viðskiptavinir hafi þurft að greiða meira fyrir kaffið sitt og bíða lengur eftir því en ef hæfasta fólkið hefði verið ráðið.
Starbucks segir í yfirlýsingu að fyrirtækið hafni þessum ásökunum með öllu. Sky News skýrir frá þessu.