Hin 27 ára gamla Shannin Desroches mátti berjast fyrir greiningu á veikindum sínum og nú berst hún til að lifa af, en henni hefur verið tjáð að lífslíkur hennar séu innan við 5%.
„Ég vil ekki vera tölfræði,“ segir Desroches í viðtali við People.
Desroches segir að læknar hafi vísað sársaukafullum magaeinkennum hennar á bug og sagt hana vera með glútenofnæmi. Hún stóð þó föst á því að meira væri að og komust læknar að því að hún væri með ristilkrabbamein. Sjúkdómurinn hafði breiðst hratt út og nú þarf hún aðgerð til að lifa af – aðgerð sem hún er ekki hæf til að fara í, sem neyðir hana í líknandi meðferð í heimalandi sínu Kanada.
„Ég var 26 á þeim tíma, svo þú heldur ekki að þetta sé krabbamein. Einkennin mín byrjuðu í október 2023 og ágerðust hratt. Ég fékk mjög, mjög slæma kviðverki vinstra megin eftir stórar máltíðir, en síðan, jafnvel með minni máltíðum, jafnvel með snarli, var ég að æla. Ég var með mikla ógleði. Sársaukinn var svo mikill,“ segir Desroches.
Hún leitaði til heimilislæknis en blóðrannsóknvar í lagi. Aftur leitaði hún til hans og sagðist finna til: „Heyrðu, þetta er vont. Má ég fara í sneiðmyndatöku, ómskoðun, eitthvað?“ Læknirinn hlustaði ekki og sagði hana með ofnæmi fyrir glúteni. Hann endaði þó með því að bóka hana í tölvusneiðmynd í október 2024.
Í apríl 2024 leitaði Desroches til þriggja lækna og skurðlæknis, sem var sá sem greindi hana. „Þeir sögðu allir: „Ó, Shan, þú ert ung, þú ert heilbrigð, það er ekkert alvarlegt að.“ Og ég vissi að þetta var eitthvað meira. Ég er hjúkrunarfræðingur. Líkaminn minn bókstaflega öskraði á mig að fá hjálp.“
Desroches fór loksins í segulómun 11. apríl. Að henni lokinni var henni sagt að þyrfti að leggja hana inn þar sem og sagði skurðlæknir henni að það liti út fyrir að hún væri með krabbamein.
Desroches var lögð inn og hafði engan tíma til að undirbúa sig fyrir ristilspeglun. „Ég var vakandi og læknirinn sýndi mér allt á skjánum. Hann fór 30 sm inn og sá risastórt æxli. Ég man að ég sá það á skjánum. Æxlið mitt var svo stórt að hann gat ekki einu sinni komið myndavélinni framhjá því til að halda áfram, svo hann gat ekki einu sinni klárað ristilspeglunina mína.“
Þarna hafði hún enn ekki farið í sneiðmyndatökuna sem heimilislæknirinn hennar bókaði. Og nú var hún undirbúin fyrir aðgerð tveimur dögum seinna. Ráðgert var að hún fengi stómapoka, krabbameinslyf til að minnka æxlin og svo yrði til að snúa við stóminu.
„Ég fann fyrir svo miklum sársauka – en ég ætla að berjast. Það átti að vera aðeins einn til tveir tímar af aðgerð.“
Aðgerðin varð þó sex tímar og minnist Desroches að hafa horft á kviðinn á sér þar sem enginn stóma var en hún hins vegar saumuð saman.
„Það var staðfest að þetta væri 4. stigs ristilkrabbamein. Og svo var mér sagt að læknirinn hefði fjarlægt allt æxlið mitt úr ristlinum og tengt hann aftur. Ég var með Krukenberg æxli á hægri eggjastokknum svo þeir fjarlægðu hann. Og svo fjarlægði hann 13 eitla úr kviðveggnum mínum og 11 reyndust með krabbamein. Lifrin var svo þakin æxlum en hann gat ekki fjarlægt þau, því hætt var við að lifrin myndi bila. Þannig að planið var að hitta krabbameinslækni og hefja krabbameinslyfjameðferð strax í von um að draga úr meininu í lifrinni.“
Læknirinn tjáði Desroches að vinstri eggjastokkurinn hefði ekki verið með meinvörpum í, hætta væri þó að meinið dreifði sér í hann en þar sem hún væri svo ung hefði hann ekki fjarlægt vinstri eggjastokkinn til að gefa henni kost á að varðveita egg sín.“
Desroches segir að þarna hafi áfallið slegið hana með fullum þunga. „Maður er enn að vinna úr K-orðinu, krabbamein, að vera með krabbamein 26 ára. Ég og maðurinn minn keyptum hús ári áður. Börn voru næst á listanum.“
Sjö egg náðust og segir Desroches að hún hafi gefið manninum sínum Cody fullan lagalegan rétt til að ráðstafa þeim eins og hann vildi ef hún myndi deyja af veikindum sínum. Segir hún í raun engan tíma hafi gefist til að meðtaka aðstæðurnar, hraðinn var svo mikill.
„Magnið af hormónum og lyfjum sem var dælt í mig á stuttum tíma olli miklu álagi á líkama minn. Ég hef aldrei verið með svona mikla verki. Mér hefur aldrei liðið jafn illa. Ég byrjaði á krabbameinslyfjameðferð, en eftir þá þrettándu gat líkaminn ekki meira. Ég reyndi að komast í skurðaðgerð: Lifrarslagæðainnrennslisdælu (HAI) sem gefur krabbameinslyfjameðferð beint inn í lifur. Í Kanada er aðgerð ekki gerð ef maður er með krabbamein utan lifrar. Og ég er með lítið æxli sem er að myndast á vinstri eggjastokknum svo ég er ekki kanditat í aðgerðina.“
@shannindesroches went from crazy thick hair to losing it to chemo, so doing a chop trying to help protect it as much as I can. Luckily I have the most supportive husband who was making me smile through it all before going to the hair dressers to get it cleaned up! #cutmyhairoff #chemohairloss #chemotherapy #cancerawareness🎗 #cancerfighter #coloncancerawareness #haircut ♬ Beautiful Things – Benson Boone
Desroches hefur sagt frá reynslu sinni TikTok og stofnaði GoFundMe söfnunarsíðu svo hún kæmist í meðferð í öðru landi þar sem hún væri samþykkt.
„Þegar ég greindist gaf skurðlæknirinn mér þrjú ár eftir ólifuð. Eina vonin væri aðgerð þar sem meinið væri fjarlægt úr lifrinni. Það er næstum ár síðan hann sagði þetta. Aðgerðin mun kosta fáránlega mikið, en þú gerir bara það sem þú þarft að gera.“
@shannindesroches My foreverr #fyp #foryoupage❤️❤️ ♬ original sound – camzz.edit
Desroches og Cody giftu sig í október á Jamaíka og segir hún það hafa verið draumabrúðkaup, skipulag á fjórum vikum.
„Ég held að ég gæti ekki staðið í þessari baráttu án Cody. Skurðaðgerð er það sem mun bjarga lífi mínu. Ef ég fæ ekki aðgerðina mun ég ekki lifa. Ég hef svo mikið að berjast fyrir að ég hugsa ekki einu sinni um að það eru aðeins tvö ár eftir. Eða jú, ég hugsa um það, vegna þess að það er það sem knýr mig til að berjast. Ég vil ekki láta meinið vinna, því það er tölfræði. Ég vil ekki vera tölfræði. Ég vil sigrast á meininu. Krabbameinslæknirinn minn sagði mér að ég ætti innan við 5% líkur á að sigrast á meininu. Ég vil vera þessi 5%.“