Lögreglumenn höfðu flutt Robert í Marcy-fangelsið í uppsveitum New York-ríkis þann 9. desember síðastliðinn og segir William J. Fitzpatrick, saksóknari í málinu, að tekið hafi verið á móti honum með ofbeldi. Hann hafi verið laminn nánast til óbóta og kafnað á eigin blóði.
„Rannsókn okkar hefur leitt í ljós að ekkert sem Robert Brooks gerði réttlætti þessa meðferð. Staðreyndin er sú að hann gerði nákvæmlega ekki neitt,“ sagði Fitzpatrick á blaðamannafundi í gær þar sem hann tilkynnti um ákærurnar.
Barsmíðarnar náðust á búkmyndavél fangavarðar og á myndefninu má meðal annars sjá þegar Robert var kýldur í höfuð, sparkað í hann og þrengt að öndunarvegi hans meðan hann var hlekkjaður á höndum og fótum. Hlaut hann innvortis blæðingar og beinbrot meðal annars.
Robert Brooks Jr., sonur Roberts, var viðstaddur blaðamannafundinn í gær. „Ég mun aldrei fá föður minn aftur. Þessir menn myrtu föður minn og það náðist á myndband. Það er ósk mín að dauði hans verði ekki til einskis“ sagði hann.