Bandaríkin eru klofin í tvennt. Þetta má lesa úr skoðanakönnunum um afstöðu til Donald Trump Bandaríkjaforseta. Skoðanakönnun Reuters og Ispo, sem var greint frá í gær, sýndi að 44% landsmanna eru ánægð með frammistöðu Trump og 51% eru óánægðir. Gallup komst að svipaðri niðurstöðu, 45% voru ánægðir með Trump og 51% óánægðir. En kannanir sýna þó að Repúblikanar eru í skýjunum með forseta sinn, en samkvæmt Gallup eru 93% repúblikana ánægðir með Trump, en aðeins 4% demókrata og 37% óháðra. Þessi mikli munur á milli flokkanna tveggja sýnir hversu klofin þjóðin er nú, en bilið milli flokkanna hefur aldrei verið meira.
Demókratar eru uggandi og telja að Trump ætli að koma á einveldi. Þessu til stuðnings hafa þeir vísað til þess að Trump gaf í vikunni út forsetatilskipun til að slá því á föstu að hann færi fyrir framkvæmdavaldi þjóðarinnar og það kæmi því í hans hlut eða ríkissaksóknara að túlka lögin, en slíkt sé ekki í höndum einstakra stofnana eða nefnda. Demókratar túlka þetta sem svo að Trump sé að lýsa því yfir að hann einn ráði því hvernig lög eru túlkuð í landinu.
Ekki bætti úr skák þegar Trump kallaði sig svo kóng í færslu á samfélagsmiðlum skömmu síðar. Demókrötum féllst mörgum hendur við þá yfirlýsingu og lýstu yfir andláti lýðræðisins. En eru fréttir af lýðræðisdauðanum stórlega ýktar? Og ef Trump hefur tekið sér upp alræðisvald, hvað finnst stuðningsmönnum hans um slíkt?
Á Reddit má finna síðu þar sem íhaldsmenn ræða málin. Þangað leitaði aðili í gær, sem er uggandi út af fréttum um meinta einvaldinn Trump, og vildi vita hvers vegna íhaldsmenn eru bara slakir yfir þessu öllu saman.
Hann deildi færslu Trump þar sem forsetinn fjallaði um vegatolla í New York og lauk færslunni á orðunum: „Lengi lifi konungurinn“.
Netverjinn bað íhaldsmenn um að útskýra orð og gjörðir forsetans fyrir sér líkt og hann væri 5 ára barn: „Hvernig er þetta jákvætt? Hvernig er þetta grín? Í ljósi þess hversu mikið fólk hefur undanfarið talað um nasistakveðjur, hvernig er í lagi að tjá sig með þessum hætti og hvaða kóng er hann að tala um? Hann sagði að ef hann næði kjöri þá þyrfti ekki að kjósa aftur. Hvað meinti hann með þessu? Hvernig hóf Úkraína stríðið þegar það var Rússland sem réðst þangað inn? Hann sagði í viðtali að hann sé löggjafinn og á samfélagsmiðli sínum Truth Social sagði hann að sá sem bjargar landi sínu brjóti engin lög.“
Margir úr hópi íhaldsmanna fögnuðu því að aldrei þessu vant væri demókrati að leita til þeirra eftir málefnalegri umræðu. Sumir notuðu að sjálfsögðu tækifærið og gerðu grín að sameiginlegu taugaáfalli vinstri manna en margir gáfu sér tíma í að skrifa málefnaleg svör sem voru laus við upphrópanir, svona að mestu.
„Ef þú ert að spyrja í einlægni þá skal ég reyna að fara í gegnum eitthvað af þessu ef þú getur þá lesið svör mín án þeirrar hlutdrægni sem þú hefur gagnvart Trump. Ég er repúblikani, ég veit að ég er hlutdrægur en ég reyni að vera meðvitaður um það og horfa gagnrýnum augum á allt sem ég styð,“ sagði repúblikani sem rakti fyrst hvað Trump átti við þegar hann kallaði sig kóng. Þau ummæli þyrfti að skoða í réttu samhengi. Trump var í færslu sinni að tilkynna að hann væri að slaufa vegatollum í New York. Fólk má ekki gleyma því að Trump var athafnamaður áður en hann sneri sér að stjórnmálum og var áberandi í viðskiptalífinu í New York. Stundum var hann þar kallaður kóngurinn. Sonur hans meira að segja vísaði til þess á kosningafundi í New York að konungurinn væri snúinn aftur til að endurheimta borgina sem hann byggði upp.
„Svo ef þú horfir hlutlægum augum á ummælin þá er þetta einfaldasta og líklegasta skýringin. Við getum ekki fullyrt nákvæmlega hvað hann meinti en út frá samhenginu og sögu hans í borginni þá hljómar þetta sennilega.“
Hvað varðaði ummæli um að kjósendur þyrftu aldrei að kjósa aftur þurfi líka að skoða samhengið. „Hann var að höfða til trúarhóps sem sögulega hefur verið erfitt að fá á kjörstað. Hann sagði: mætið á kjörstað í þetta eina skipti og ég laga svo Bandaríkin svo vel að þið þurfið ekki einu sinni að hugsa um það að kjósa aftur (því hlutirnir yrðu svo góðir að það myndi engu skipta hver væri í embætti). Er þetta kjánalegt orðalag? Já, auðvitað. Eru þetta gífuryrði? Já, auðvitað. Var hann að meina að hann ætlaði að slaufa kosningakerfinu? Nei.“
Repúblikaninn tók þó fram að hann ætlaði ekki að verja Trump fyrir ummæli forsetans um að Úkraína beri ábyrgð á stríðinu við Rússland. Líklega hafi Trump verið að vísa til þess að Úkraína hefði getað gengið fyrr að samningaborðinu og stillt væntingum sínum betur í hóf. Trump hafi ítrekað haldið slíku fram. „Hann hefði samt ekki átt að segja þetta. Ég er á móti slíkum ummælum. Úkraína hefur sýnt aðdáunarverða seiglu og barist hetjulega. Ég hef ekkert nema aðdáun og virðingu í þeirra garð. Rússland er klárlega illmennið, forsprakkinn og sá aðili sem er röngum megin við línuna. Punktur.“
Eins hefði Trump ekki átt að segja þetta með að þeir sem bjarga landi sínu brjóta engin lög. Það megi halda því fram að slíkt feli í sér landráð, en líklega hafi Trump sjálfur verið að gantast með fullyrðingar andstæðinga sína um meintar alræðis-tilraunir hans. Hann hefði þó ekki átt að birta færsluna án þess að koma því betur á framfæri.
Fleiri íhaldsmenn benti á að fólk eigi til að gleyma því að Trump er annálað internet-tröll og nærist á því að hæðast að andstæðingum sínum. Demókratar taki Trump ekki alvarlega en öllu sem hann segi bókstaflega. Repúblíkanar taki Trump alvarlega en ekki bókstaflega.
Einn tók fram að það væri þó smá áhyggjuefni hvað Trump elskar að vera tröll: „Hef ég áhyggjur af því að Trump komi á alræði því hann er búinn að plana það alla tímann eða að slíkt sé eitthvað sem hann vill? Nei. Hef ég áhyggjur af því að hann gæti komið á alræði bara upp á grínið eða því það yrði geggjur netbrandari? Já, smá.“
Mjög margir bentu á að það sé vissulega hægt að vekja ótta ef ummæli forsetans eru slitin í sundur og tekin úr samhengi. Trump sé kannski ekki konungur Bandaríkjanna en hann sé klárlega kóngurinn í þvi að hrekkja demókrata. „Haha demókratar vilja svo örvæntingafullt gera sig að fórnarlömbum. Nei við erum ekki orðin að einveldi. En haldið endilega áfram að grípa í perlurnar, hann er að tröllríða demókrata í þrot,“ skrifar einn og annar bætir við: „Trump elskar að grínast. Ef hann stuðar þig ekki, þá er hann bara frekar fyndinn. Þið [demókratar] eruð bara að gera það sem húmorslaust fólk elskar að gera, að taka fólki bókstaflega þegar það er að grínast og klárlega engin alvara að baki. Fyrir þannig fólk er Trump ótæmandi brunnur hluta til að móðgast yfir.“