fbpx
Föstudagur 21.febrúar 2025
Pressan

Afhjúpar 13 stærstu lygar Donald Trump síðan hann tók við sem forseti Bandaríkjanna

Pressan
Fimmtudaginn 20. febrúar 2025 22:00

epa08845162 US President Donald J. Trump speaks in the Diplomatic Room of the White House on Thanksgiving in Washington, DC, USA, 26 November 2020. EPA-EFE/Erin Schaff / POOL

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Donald Trump er aftur kominn í Hvíta húsið og byrjaði kjörtímabilið á svo miklum hamagangi að margir Bandaríkjamenn eru sannfærðir um að næstu fjögur árin verði löng. Kanadíski blaðamaðurinn Daniel Dale hjá CNN er minnugur þess að síðasta kjörtímabil Trump einkenndist af rangfærslum, en Washington Post hefur metið það svo að hann hafi á fyrra kjörtímabili sínu 30.573 komið með rangar eða misvísandi fullyrðingar.

Dale rekur að Trump ætli sér klárlega að halda uppteknum hætti þetta kjörtímabil. Dale hefur tekið saman 13 stærstu lygarnar sem Trump hefur látið frá sér síðan hann tók við embætti fyrir mánuði síðan.

1. Sagan um  Hamas-smokkana

Á fyrsta blaðamannafundi sínum í Hvíta húsinu tilkynnti upplýsingafulltrúinn Karoline Leavitt að Trump hefði sparað ríkinu milljarða með því að stöðva áform um að senda rúmlega 7 milljarða til Gaza sem átti að eyða í smokka. Degi síðar tilkynnti Trump um það sama og skömmu síðar var ekki lengur um að ræða 7,2 milljarða heldur 14,4 milljarða. Ríkisstjórnin hafði ekkert í höndunum sem sannaði þessa fullyrðingu. Síðar kom á daginn að Trump og ríkisstjórn hans voru að fara rangt með tölur sem og staði. Það voru peningar sendir í gegnum þróunar- og mannúðaraðstoð Bandaríkjanna (USAID) til héraðs sem heitir Gazsa og er í Mozambique. Engir smokkar voru þó sendir þangað heldur getnaðarvarnir fyrir rétt rúmar 780 milljónir á síðasta ári, en Mozambique glímir við faraldur HIV-veirunnar og berkla.

2. Úkraína byrjaði stríðið

Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2022. Þetta er staðreynd. Engu að síður sagði Trump í vikunni að Úkraína „hefði aldrei átt að byrja þetta stríð. Þið hefðuð bara átt að semja.“

3. Ríkisborgararéttur við fæðingu

Trump hefur haldið því fram að Bandaríkin séu eini staðurinn á jörðinni þar sem fólk fær ríkisborgararétt bara við það að fæðast í landinu. Það er ekki rétt. CNN hefur bent á að fjöldi annarra landa, svo sem Kanada og Mexíkó, veiti fólki ríkisborgararétt ef það fæðist þar.

4. Raunveruleg atburðarás 6. janúar 2021

CNN rekur að Trump hafi árum saman farið rangt með staðreyndir þegar hann talar um áhlaupið sem var gert á bandaríska þinghúsið í janúar 2021. Hann hefur nú náðað alla þá sem fengu á sig dóm fyrir óeirðirnar, þar með talið einstaklinga sem réðust á lögreglu. Trump útskýrði nýlega að þetta fólk hefði aldrei átt að hljóta dóm. Það hefði orðið fyrir árás ríkisins. CNN rekur að Trump hafi þarna frekar frjálslega með sannleikann þar sem fjöldi myndbanda er til af áhlaupinu sem sýna hvernig það fór fram og hverjum var um að kenna. Meira að segja 170 þeirra sem nú hafa fengið náðun játuðu sök fyrir dómi.

5. Blekking um vatnið í Kaliforníu

Hræðilegar hörmungar gengu yfir Kaliforníu nýlega þar sem þúsundir misstu heimili sín í stjórnlausum gróðureldum. Trump vildi þó kenna stjórnvöldum í Kaliforníu um hörmungarnar. Þar hefðu yfirvöld ákveðið að eyða vatni í að vernda fiskistofna við strendurnar og þar með hefði ekki verið hægt að slökkva eldana. Þetta tvennt er þó með öllu ótengt. Síðan krafðist Trump þess að milljarðar lítra vatns fengju að renna frá vatnslóni í Central Valley til að slökkva eldana. Þetta var með öllu tilgangslaust þar sem vatnið þaðan rennur ekki til Los Angeles þar sem eldarnir loguðu. Hins vegar hefur þetta valdið því að nú eiga bændur í Kaliforníu hættu á að verða vatnslausir í sumar.

6. Kosningalygin sem enn er haldið á lofti

„Hvað er einu sinni hægt að segja um þetta núna?,“ skrifar blaðamaður. Hann rekur að þó að Trump hafi sigrað kosningarnar í nóvember þá hafi það engan stoppað stöðugar lygar hans um meint svindl í kosningunum 2020. Hann talar enn um að kosningunum hafi verið stolið.

7. Mýtan um boxarann

Dale rekur að fyrir nokkrum misserum gat Trump ekki hætt að ljúga um uppruna fyrrum forsetans Barack Obama, en Trump neitaði að viðurkenna að Obama væri fæddur í Bandaríkjunum. Nú hefur hann þó fundið sér nýtt áhugamál, lygar um boxarann Imane Khelif. Khelif er kraftmikill boxari. Hún er vöðvastælt, hávaxin og með afgerandi andlitsdrætti. Þetta hafa andstæðingar hennar notað til að dreifa lygum um að hún sé trans kona. Khelif er líffræðilega kvenkyns. Trump talar mikið um Khelif, og annan Ólympíuboxara, Lin Yu-Ting, þegar hann er að færa rök fyrir því að trans konur eigi ekkert erindi í íþróttir. En aftur, bæði Khelif og Yu-Ting eru líffræðilega kvenkyns og skilgreina sig sem kvenkyns. Faðir Khelif hefur meira að segja sýnt blaðamönnum fæðingarvottorð hennar, þar sem kemur fram að hún er fædd kvenkyns í heimalandi sínu, Algeríu þar sem það er bókstaflega ólöglegt að skipta um kyn í opinberum skrám, eða yfirhöfuð. Eins er ekki hægt að fá þar kynleiðréttandi læknisþjónustu.

8. Lygar um nágrannaríkið

Trump hefur undanfarna mánuði talað um að gera Kanada að 51. ríki Bandaríkjanna. Hann fullyrðir að Kanadabúar tækju því opnum örmum. Raunveruleikinn er þó sá að Kanadabúar hata þessa hugmynd. Trump hefur engu að síður haldið áfram að dreifa lygum um Kanada, svo sem að bandarískir bankar megi ekki eiga viðskipti þar, sem er rangt.

9. Biden kennt um verkefni sem hófust í fyrri valdatíð Trump

Dale rekur að Trump hafi í janúar kennt ríkisstjórn Biden um hræðilegt flugslys sem átti sér stað þegar herþyrla flaug á farþegaþotu í janúar. Trump sagði að slysið væri Biden að kenna fyrir að hafa ráðið inn ríkisstarfsmenn á grundvelli fjölbreytni, jafnréttis og inngildingar (DEI). Trump hélt því meira að segja fram að Biden hefði þvingað opinberar stofnanir til að ráða inn fólk í flugumferðarstjórnun sem væri með alvarlegar fatlanir. Dale bendir á að það var Trump sjálfur sem var við völd þegar þessi DEI-stefna var tekin upp hjá Flugumferðarstofnun Bandaríkjanna (FAA) árið 2019.

10. Látlausar rangfærslur um verndartolla

Trump hefur farið mikinn um tolla og hvernig þeir eigi eftir að bjarga Bandaríkjunum. Hann hefur þó ávallt látið að því liggja að það séu viðskiptaþjóðir Bandaríkjanna sem borga þennan toll þegar í rauninni verða það bandarísk fyrirtæki og neytendur sem borga. Hann hefur aldrei viðurkennt að bandarískir innflutningsaðilar þurfa að borga fyrir hærri tolla.

11. Ýkjur um einhverfu

Dale segir að Trump hafi lengi gælt við samsæriskenningar um að bólusetningar barna valdi einhverfu, þó að vísindamenn hafi ítrekað hrakið þá kenningu. Vissulega eru fleiri að greinast með einhverfu í dag en fyrir nokkrum áratugum síðan en almennt er talið að það megi rekja til þess að fólk er meðvitað um einkenni einhverfu og leitar frekar eftir greiningu.

12. Aðgengi Kína að Panamaskurðinum

Dale segist sannfærður um að mikið af lygum Trump séu bara spunnar upp á staðnum. Sumar eru þó úthugsaðar. „Hann sagði í setningarræðu sinni í janúar: Umfram alla er það Kína sem stjórnar Panamaskurðinum. En við gáfum ekki skurðinn til Kína heldur til Panama og við ætlum að taka hann til baka.“ Þetta hefði verið góð lína ef Kína væri í raun að stjórna Panamaskurðinum, sem það gerir ekki. Panama stýrir honum. Trump hefði þó getað varpað fram góðum spurningum um þau ítök sem Kína hefur á svæðinu.“

13. Staða Trump meðal ungra kjósenda

Trump sigraði í öllum sjö sveifluríkjum Bandaríkjanna en það er ekki nóg fyrir hann. Dale rekur að Trump sé þrátt fyrir glæstan sigur sífellt að ýkja árangur sinn. Til dæmis með því að halda því fram að hann hafi rústað Kamala Harris hvað varðaði atkvæði frá yngri kjósendum. Fleiri úr hópi yngstu kjósendanna kusu Harris en Trump, þó svo að Trump hafi gengið betur hjá þessum hópi en skoðanakannanir höfðu spáð fyrir um.

Sjá nánar hjá CNN

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Neyðast hugsanlega til að hætta að selja Coca-Cola í dós

Neyðast hugsanlega til að hætta að selja Coca-Cola í dós
Pressan
Í gær

Ríkustu menn Ítalíu héldu að varnarmálaráðherrann þarfnaðist aðstoðar þeirra – Síðar rann ótrúlegur sannleikurinn upp fyrir þeim

Ríkustu menn Ítalíu héldu að varnarmálaráðherrann þarfnaðist aðstoðar þeirra – Síðar rann ótrúlegur sannleikurinn upp fyrir þeim
Pressan
Fyrir 2 dögum

Basl Markle heldur áfram – Úthugsuð markaðsbrella eða bara vandræðagangur og vanþekking?

Basl Markle heldur áfram – Úthugsuð markaðsbrella eða bara vandræðagangur og vanþekking?
Pressan
Fyrir 2 dögum

Kennari setti netið á hliðina með eitraðri pillu sem hann sendi öfgahægri-miðli – „Nei vinur, andspyrnan er raunveruleg“

Kennari setti netið á hliðina með eitraðri pillu sem hann sendi öfgahægri-miðli – „Nei vinur, andspyrnan er raunveruleg“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Musk neitar að ríkisstjórn Trump ætli að kaupa Teslu Cybertrucks fyrir 56 milljarða

Musk neitar að ríkisstjórn Trump ætli að kaupa Teslu Cybertrucks fyrir 56 milljarða
Pressan
Fyrir 2 dögum

Taívanar taka hart á fyrirtækjum sem hjálpa landsmönnum að sækja um kínversk skilríki

Taívanar taka hart á fyrirtækjum sem hjálpa landsmönnum að sækja um kínversk skilríki