fbpx
Föstudagur 21.febrúar 2025
Pressan

Kennari setti netið á hliðina með eitraðri pillu sem hann sendi öfgahægri-miðli – „Nei vinur, andspyrnan er raunveruleg“

Pressan
Miðvikudaginn 19. febrúar 2025 14:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gagnfræðiskóli Jesúíta, Walsh Jesuit High School, í Cuyahoga Falls er nú staddur í auga samfélagsmiðlastorms eftir að starfsmaður skólans brást ókvæða við fyrirspurn frá áhrifavaldi úr öfgahægri-hreyfingunni.

Hvað er Libs of TikTok?

Um er að ræða vinsæla síðu á X, áður Twitter, sem kallar sig Libs of TikTok. Þessi síða byrjaði sem grín. Þar birti fyrrum fasteignasalinn Chaya Raichik færslur til að hæðast að TikTok-myndböndum sem þóttu „woke“ eða almennt frjálslynd og vinstrisinnuð. Íhaldsmenn í Bandaríkjunum féllu kylliflatir fyrir hæðninni og þá sérstaklega öfgahægrihreyfingar. Síðan hefur fært út kvíarnar og meðal annars verið sökuð um að dreifa skaðlegum falsfréttum, áróðri og stuðla að upplýsingaóreiðu. Verst þykir þó að færslurnar hafa ítrekað orðið til þess að kennarar, heilbrigðisstarfsmenn, bókasafnsverðir, hinsegin fólk og fleiri hafa orðið fyrir grófu áreiti og jafnvel líflátshótunum. Menntastofnanir hafa meira að segja fengið sprengjuhótanir eftir að þær voru teknar fyrir af Libs of TikTok.

Raichik er mikil Trump-kona og var viðstödd þegar áhlaup var gert á bandaríska þinghúsið í janúar 2021 eftir að Trump tapaði forsetakosningunum. Þá hafði hún aðeins tæplega þúsund fylgjendur á X en í dag eru þeir rúmlega 4 milljónir. Síðan segist í dag vera fréttamiðill sem birtir fréttir sem fá hvergi annars staðar að birtast. Raichik hafði birt færslur sínar í skjóli nafnleyndar og brást ókvæða við árið 2022 þegar fjölmiðlar nafngreindu hana. Hún segði að með því að nafngreina hana væri verið að dreifa persónuupplýsingum um hana í hennar óþökk og eins væri þannig brotið gegn tjáningarfrelsi hennar. Þetta þótti kaldhæðið í ljósi þess að vinsældir Raichik byggja einmitt á því að hún nafngreinir persónur og stofnanir í færslum sínum sem verður til þess að þessir aðilar verða fyrir áreitni. Hún hefur meira að segja orðið til þess að þó nokkrir kennarar hafa misst vinnuna.

Þetta var smá útúrdúr til að útskýra hvað Libs of TikTok er. Síðan er í raun orðin svo stór í dag að líklegt þykir að Raichik sé ekki lengur ein að sjá um birtingar og eins er nú hægt að finna margar systursíður.

Það var aðili á vegum Libs of TikTok sem hafði samband við áðurnefndan skóla. Tilefnið var ábending sem hafði borist um að vísindakennari við skólann hefði sett nemendum fyrir það verkefni að útskýra hvers vegna einkafyrirtæki væru að draga úr aðgerðum sem varða fjölbreytni, jafnrétti og inngildingu (DEI). Libs of TikTok vildi vita hver væri stefna skólans varðandi það að ræða pólitísk málefni í skólanum.

Umdeilt bréf

Libs of TikTok fengu svar, en ekki frá vísindakennaranum eða stjórnendum skólans heldur frá ónefndum starfsmanni sem sendi nafnlausan reiðilestur. Hér hefur bréfinu verið snarað yfir á íslensku:

„Ég er ekki að nota vinnupóstinn minn til að hafa samband við þig. Ef þú kemst að því hver ég er, frábært, ég tek því alveg. Mér er í raun sléttsama þó upp um mig komist því það er í fínu lagi að hvítir þjóðernissinnar, rasistar, útlendingahatarar, andkristnir geðsjúklingar eins og þú og þinn miðill fáið að vita að það eru í það minnsta kosti sumir bandarískir kennarar sem láta appelsínumanninn og skósveina hans ekki ógna sér með tilraunum þeirra til að gera menntun hvíta. Já, ég kenni við sama skóla og manneskjan sem þú hafðir samband vegna. Já, ég styð 100% það verkefni sem hún setti nemendum sínum fyrir. Og já, mér gæti ekki verið meira sama þó að þú baktalir stofnun okkar á þínum miðli. Ég vona reyndar að foreldrar, nemendur og velgjörðarmenn okkar viti hvað við stöndum fyrir sem skóli: við erum ekki stofnun hvítra forréttinda eða MAGA-áróðurs. Við erum stofnun kaþólska-kristna orðsins og fylgjum hefðum Jesúíta og ígnatískum spíritisma.

Ég er að skrifa þetta því ég vil ekki að þið látið þetta líta út sem að samstarfskona mín sé að gera þetta upp á sitt frjálslynda eindæmi. Nei vinur, andspyrnan er raunveruleg og er enn að stækka. Við munum ekki láta undan hótunum eins og þeirri sem þú kemur með í tölvupóstinum sem þú sendir yfirmönnum mínum.

Ég get vitnað um það persónulega að mínir nemendur frá daglega að heyra um það sem er að gerast í Bandaríkjunum og í heiminum. Mínir nemendur munu læra um mikilvægi fjölbreytni, jafnréttis og inngildingar; þau munu læra að virða allar manneskjur; þau munu læra að loftlagsbreytingar eru raunverulegar; þau munu læra að enginn maður er ólöglegur; þau munu læra að þau njóta forréttinda – ekki svo þau fái samviskubit heldur svo þau geti gengist við ábyrgð; þau munu læra að Bandaríkin voru ALDREI frábær (og eru það klárlega ekki núna); þau munu læra að ameríski draumurinn er í raun ameríska goðsögnin; þau munu læra að Jesús og heilaga fjölskyldan voru innflytjendur; og það sem mikilvægast er þá munu þau læra að stefnumál núverandi ríkisstjórnar, stór og smá, eru yfirgengilega andkristin.“

Skólinn harmar umræðuna

Libs of TikTok birtu bréfið og sögðu það gjörsamlega vanstillt. Það sé óverjandi að bréf sem þetta komi frá manneskju sem kennir börnum. Walsh Jesuit High School hefur brugðist við málinu með því að senda bréf til foreldra þar sem skólinn harmar umræðuna og segir skoðanir ónefnda kennarans ekki endurspegla gildi og stefnur skólans. Starfsmenn hafi rétt til sinna persónulegu skoðana en þær eigi þó ekkert erindi inn í skólastarfið. Málið mun vera til rannsóknar innan skólans.

Auðkýfingurinn Vivek Ramaswarmy, sem vill verða næsti ríkisstjóri Ohio, hefur tjáð sig um málið. Hann útskrifaðist úr örðum Jesúítaskóla í Ohio og segir bréfið umdeilda ekki endurspegla þau gildi sem Jesúítar kenna nemendum sínum. Hann vonar að bréfaritari fái þá aðstoð sem hann klárlega þarf.

Akron Beacon Journal greinir frá 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Ríkustu menn Ítalíu héldu að varnarmálaráðherrann þarfnaðist aðstoðar þeirra – Síðar rann ótrúlegur sannleikurinn upp fyrir þeim

Ríkustu menn Ítalíu héldu að varnarmálaráðherrann þarfnaðist aðstoðar þeirra – Síðar rann ótrúlegur sannleikurinn upp fyrir þeim
Pressan
Í gær

Handtekinn 45 árum eftir morðið á mæðginunum

Handtekinn 45 árum eftir morðið á mæðginunum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hverjar geta afleiðingarnar orðið ef 2024 YR4 lendir í árekstri við jörðina? – Þetta vitum við núna

Hverjar geta afleiðingarnar orðið ef 2024 YR4 lendir í árekstri við jörðina? – Þetta vitum við núna
Pressan
Fyrir 3 dögum

Horfðu á pabba drepa mömmu

Horfðu á pabba drepa mömmu