fbpx
Föstudagur 21.febrúar 2025
Pressan

Basl Markle heldur áfram – Úthugsuð markaðsbrella eða bara vandræðagangur og vanþekking?

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 19. febrúar 2025 15:30

Meghan Markle Mynd: Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Meghan Markle virðist enn í basli með væntanlegt lífsstílsmerki sitt og það á fleiri en einu sviði.

DailyMail greinir frá því að bæjaryfirvöld í spænska þorpinu Porreres á Mallorca eru að íhuga málsókn gegn hertogaynjunni fyrir að hafa stolið skjaldarmerki bæjarins fyrir merki lífsstílsmerkis hennar.

Merkin eru eins og sjá má áþekk, hvort um sig er með pálmatré með tveimur fuglum á sveimi sitt hvoru megin. Á meðan skjaldarmerki bæjarins er litaglatt, appelsínugult og grænt fyrir tréð og sandinn, svart fyrir fuglana, á hvítum bakgrunni, notar lógó Markle dökkgráan og hvítan lit. 

Borgarstjórinn Francisca Mora sagði í samtali við staðarmiðilinn Ara Balears að líkingin væri „súrrealísk“ og segir að verið sé að ræða hvort eigi að höfða mál eða ekki. „Ég veit ekki hvort hún skoðaði einhverjar vefsíður og sá skjaldarmerkið, en myndin á vefsíðu hennar er tekin frá Mallorca.“

Borgarstjórinn bætti við að þorpið sé nú komið á kortið og vonar hún að málið muni í það minnsta veita því verðskuldaða viðurkenningu. „Ég vona að margir um allan heim verði meðvitaðir um að á Mallorca er bær í landinu sem hefur þetta skjaldarmerki. Við viljum ekki að skjaldarmerkið okkar verði afbakað vegna þess að það tilheyrir Porreres. Eini munurinn á lógó Markle og skjaldarmerkinu okkar er að hennar sýnir tvo kólibrífugla og í okkar eru annað hvort svalur eða dúfur – sagnfræðingar geta ekki verið sammála. Við munum biðja Markle um að fjarlægja lógóið af vefsíðu sinni.“

Um 5000 manns búa í Porreres, sem stofnað var á 13. öld og er um 35 km austur af Palma höfuðborg Mallorca. 

Tvær endurmarkanir búnar, sú þriðja er vandræðaleg

Málið gæti orðið til þess að Markle þurfi í þriðja sinn að endurmarka (e. rebranding) lífsstílsmerki sitt, eitthvað sem er ansi vandræðalegt að mati markaðssérfræðinga. 

Fyrir stuttu var lífsstílsmerkið algjörlega endurræst í miklum flýti með nýju nafni en endurunnu rúmlega ársgömlu kynningarefni, American Riviera Orchard (ARO) varð að As Ever. Fregnir af nafnbreytingunni láku út áður en Markle sjálf birti tilkynningu á Instagram, en tvær vikur eru þar til hefja á sýningar á lífsstílsþáttum hennar á Netflix.

Þann 14. mars í fyrra kynnti Markle merki sitt til sögunnar, en vörumerkið mun eiga að ná yfir fjölbreytt vöruúrval: hnífapör, matreiðslubækur og rafrænar matreiðslubækur, kaffi, sultuhlaup, smjör og fleira. Það nær einnig til verslunar þar sem til sölu verður borðbúnaður, sultur, dúkar og matreiðslubækur. Vörumerkið mun einbeita sér að heimilinu, garðinum, mat og almennum lífsstílsvörum. 

Sjá einnig: Markle hugsar stórt með nýju lífstílsmerki og hyggst selja allt undir sólinni

As Ever nafnabreytingin er kynnt með mynd af sultu, sem er fyrsta vara Markle, sem sló alls ekki í gegn á síðasta ári. 

 

View this post on Instagram

 

A post shared by @aseverofficial

Sjá einnig: Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla

Áður en tilkynningin kom á Instagram voru netverjar búnir að uppgötva Shopify vefsíðu sem hún hafði sett upp fyrir As Ever vörur sínar, með áður óbirtri mynd af eldamennsku Markle. Talið er að myndin hafi verið tekin á upprunalegu ARO kynningu Markle fyrir tæpu ári síðan, enda er hún eins klædd og í sama eldhúsi og sjá mátti í kynningarstiklu fyrir ARO fyrir ári.

Svo virðist sem Markle og teymi hennar hafi gert breytingu á vörumerkinu á síðustu stundu og fyrri vefslóðin as-ever-store.myshopify.com fer nú með kaupendur á nýju vefsíðuna hennar asever.com. Í gærkvöldi var myndinni af Markle skipt út fyrir mynd af henni þar sem hún valhoppar með Lilibet dóttur sinni í garðinum á Montecito heimili þeirra.

Vörumerkjasérfræðingur segir: „Þetta virðist hafa verið gert í miklum flýti, þrátt fyrir að Markle segir að As Ever nái aftur til ársins 2022. Það hefur greinilega þurft að breyta ARO en endurvinna allar kynningar vegna vörumerkjadeilu. Lekinn varð í gær og maður veltir fyrir sér hvort hún hafi ekki haft neitt um þetta að segja.“

„Það eru bara svo margar endurræsingar sem þú getur gert áður en þú byrjar að líta fáránlega út“, segir annar markaðssérfræðingur.

Telur málið úthugsaða markaðssetningu

Sá þriðji, Mark Borkowski almannatengslasérfræðingur segir að öll þessi vandræði geti verið úthugsuð aðferð til að fá ókeypis umfjöllun. „Þetta er ekki auðkenniskreppa. Þetta er viðskiptamódel. Meghan er ekki að bulla; hún sveiflast viljandi. Hin ævarandi enduruppfinning, þetta er allt úthugsað. Nei, þetta er sjónvarpsþáttur. Nei, það er sulta. Nei, það er óljóst, vörumerki sem heitir As Ever. 

Því óútreiknanlegri sem hún er, því erfiðara er að taka hana niður. Hún er ekki að reyna að vera Goop; hún er að reyna að vera ráðgáta. Varan sem hún er að selja? Endalaus forvitni um Meghan Markle. Svo kannski er hún ekki að missa stjórn á frásögn sinni,“ segir Borkowski.

„Hvað er næst? Hugsandi smjörhnífalína? Sjálfbært kerti sem lyktar eins og „enduruppfinning“? Sprettigluggaupplifun þar sem gestir geta persónulega orðið vitni að því að Meghan svarar ekki beinum spurningum? Hvað sem það er, búist við annarri nafnabreytingu þegar þessi óumflýjanlega rennur sitt skeið,“ segir Borkowski.

Segist loksins geta deilt ástríðu sinni

Markle kynnir As Ever til sögunnar á Instagram í garðinum heima í Montecito þar sem Harry réttir henni símann og segir upptöku byrjaða. Markle segir fylgjendum sínum að hún hafi ekki getað deilt ástríðu sinni fyrir mat og heimili í mörg ár þar til nú. Hún lokaði bloggi sínu The Tig og samfélagsmiðlum þegar hún hóf samband sitt við Harry Bretaprins.

„Á síðasta ári hafði ég hugsað „American Riviera“, þetta hljómar eins og frábært nafn. Það er hverfið mitt; þetta er gælunafn fyrir Santa Barbara, en það takmarkaði mig við hluti sem voru bara framleiddir og ræktaðir á þessu svæði. As Ever (Eins og alltaf) þýðir í raun eins og það hefur alltaf verið, og ef þú hefur fylgst með mér síðan 2014 með The Tig, þá veistu að ég hef alltaf elskað að elda og föndra og garðyrkja – þetta er það sem ég geri. Og ég hef ekki getað deilt því með þér á sama hátt undanfarin ár, en núna get ég það, og þar sem tíðindin eru farin að berast, vildi ég að þú heyrðir það frá mér fyrst“.

 

View this post on Instagram

 

A post shared by Meghan, Duchess of Sussex (@meghan)

Vörumerkjaumsóknir sem MailOnline afhjúpaði benda til þess að As Ever muni selja vefnaðarvöru eins og borðdúka og servíettur, húðvörur og hárvörur og snyrtivörur, teppi, rúmteppi og heimilislykt eins og kerti og reyrdreifara. Einnig verða garðverkfæri, hnífapör, hnífar og borðbúnaður. Markle segir að vörur As Ever muni innihalda sultu en bætti við að hún verði eins og The Tig og innihaldi „eldamennsku og föndur og garðrækt“. „Ég held að okkur sé öllum ljóst á þessum tímapunkti að sulta er sultan mín. En það eru svo margar fleiri vörur sem ég elska, og nú er kominn tími til að deila þeim með ykkur. Svo ég bara get ekki beðið.“

Sjá einnig: Markle hugsar stórt með nýju lífstílsmerki og hyggst selja allt undir sólinni

Þáttum frestað til að góðgera Markle

Eins og áður sagði eru tvær vikur þar til þættir Markle, With Love, Meghan, eiga að fara í loftið en sýningardegi sem átti að vera í janúar var frestað vegna gróðureldanna í Los Angeles. Sögusagnir eru um að sýningum hafi verið frestað til að bæta mætti við efni tengdu góðgerðarstörfum Markle vegna gróðureldana.

Á hún vörur til að selja?

Markle upplýsir að Netflix sé orðinn viðskiptafélagi hennar, en fréttir hafa verið birtar um að vörur hennar verði seldar í tveimur verslunarmiðstöðvum Netflix House í í Dallas og Fíladelfíu. „Þessar verslanir munu ekki opna í nokkra mánuði. Svo er spurningin: Hvar ætlar hún að selja vörurnar og á hún jafnvel vörur tilbúnar til sölu?“ tjái heimildamaður sig um við Daily Mail.

Margir spyrja sig af hverju Markle tengir þetta ekki saman, sýningu þáttanna og útgáfu lífsstílsmerkisins og vara þess. 

„Þetta er stærri samningur fyrir hana en fyrir Netflix. Ef þátturinn hennar slær ekki í gegn þá verður varningur hennar hljóðlega tekinn úr hillunum og skipt út fyrir aðrar vörur. Netflix á fjölda vinsælla þáttaraða svo opnun verslana er eðlileg og skynsamleg þróun. Í framtíðinni er von til að opna fleiri verslanir á alþjóðavettvangi.“

Einkaleyfisumsókn hafnað

Samkvæmt bandarísku einkaleyfa- og vörumerkjastofunni er enn beðið eftir samþykki á vörumerkjaumsókn fyrir nafnið As Ever. Vörumerkinu American Riviera Orchard var áendanum hafnað vegna vandamála við skráningu þess, Markle fékk frest til að laga skráningu, geri hún það ekki innan frestsins þarf að hefja umsóknarferlið að nýju. Lífstílsmerkið Harry & David, sem eiga vörumerkið „Royal Riviera“ segja nafn ARO of líkt sínu.

Meghan var einnig tjáð að hún gæti ekki öðlast einkarétt á American Riviera vegna þess að það er almennt notað sem örnefni til að lýsa Kaliforníuströndinni þar sem hún býr.

Forstjóri finnst ekki

Síðast en ekki síst mun Markle hafa verið í basli við að finna og ráða forstjóra fyrir lífsstílsmerkið þó hún sé mögulega fullfær og hæstánægð með að reka fyrirtækið sjálf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Ríkustu menn Ítalíu héldu að varnarmálaráðherrann þarfnaðist aðstoðar þeirra – Síðar rann ótrúlegur sannleikurinn upp fyrir þeim

Ríkustu menn Ítalíu héldu að varnarmálaráðherrann þarfnaðist aðstoðar þeirra – Síðar rann ótrúlegur sannleikurinn upp fyrir þeim
Pressan
Í gær

Handtekinn 45 árum eftir morðið á mæðginunum

Handtekinn 45 árum eftir morðið á mæðginunum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hverjar geta afleiðingarnar orðið ef 2024 YR4 lendir í árekstri við jörðina? – Þetta vitum við núna

Hverjar geta afleiðingarnar orðið ef 2024 YR4 lendir í árekstri við jörðina? – Þetta vitum við núna
Pressan
Fyrir 3 dögum

Horfðu á pabba drepa mömmu

Horfðu á pabba drepa mömmu