Börn stríðsins. Þetta er nafn auglýsingaherferðar sem má finna í þéttbýliskjörnum Þýskalands þessa dagana. Þar má sjá myndir af börnum sem eru sögð hafa látið lífið í stríði Rússlands við Úkraínu. Myndirnar af börnunum eru svarthvítar en fyrir neðan þær má finna fæðingar- og dánarár barnanna í rauðu letri. Herferðin kallar eftir því að leiðtogar Evrópu beiti sér fyrir friði.
Þeir sem standa að baki herferðinni segjast ótengdir stjórnmálum. Það eina sem vaki fyrir þeim er að binda endi á þjáningu saklausra barna. Þessar auglýsingar bera gjarnan yfirskriftina: Öngstræti englanna (þ. engel allee).
Reuters greinir frá því að hafa undir höndum gögn frá ónefndri evrópskri njósnastofnun. Þessi gögn gefi til kynna að áðurnefnd herferð sé í raun á vegum Rússlands og henni sé ætlað að grafa undan stuðningi Þjóðverja við Úkraínu. Þessi gögn eru eins konar stöðuskýrslur sem voru sendar til Rússlands til að gera grein fyrir árangri herferðarinnar. Meðal annars er þar lýst hvernig hefur verið stutt við vörumerki herferðarinnar, slagorð og jafnvel stuðning við mótmæli bænda í Þýskalandi. Skýrsluhöfundur tekur fram: „Við erum að taka þátt í mótmælahreyfingu sem er svo sannarlega að grafa undan stöðugleika þýskra stjórnmála.“
Reuters greinir frá tengslum herferðarinnar við ýmsa aðila sem teljast vinveittir eða tengdir Rússlandi. Þar með talið öfgahægri flokkinn AfD. Í kjarna herferðarinnar er kennarinn Oksana Walter. Hún fæddist í fyrrum Sovétríkjunum og á rússneskan föður og úkraínska móður. Rússneskur fréttamiðill, sem er rekinn af manni sem starfaði áður fyrir leyniþjónustu þar í landi, hefur fjallað mikið um herferðina. Áðurnefndar skýrslur voru sendar til útsendara rússnesku leyniþjónustunnar GRU, en ekki liggur fyrir hver ritaði þær.
Stjórnvöld í Þýskalandi hafa tekið eftir mikilli aukningu í njósnum frá Rússlandi sem og tilraunum til að hafa áhrif á kjósendur þar í landi og almannaálit. Til að sporna gegn þessu hafa stjórnvöld stofnað sérstakan starfshóp til að berjast gegn tilraunum erlendra aðila til að hafa áhrif á úrslit væntanlegra þingkosninga. Mikið er í húfi fyrir Rússland þar sem Þýskaland er sú þjóð sem hefur helst stutt Úkraínu í stríðinu, fyrir utan Bandaríkin. Reuters rekur að markmið herferðarinnar um börn stríðsins virðist vera að kalla eftir því að Vesturlönd hætti að senda hergögn til Úkraínu og eins tilraun til að gera almenning afhuga slíkum stuðningi.
Þýskaland er ekki eina landið sem á í þessum vanda. Fleiri Evrópuþjóðir hafa sakað Rússa um áróðursherferðir sem er ætlað að auka sundrung og snúa almenning gegn Úkraínu. Pólland greindi frá því í janúar að stjórnvöld þar í landi hefðu komið upp um rússneskan hóp sem var falið að hafa áhrif á forsetakosningarnar með upplýsingaóreiðu og með því að grafa undan stöðugleika.
Reuters leitaði svara hjá yfirvöldum í Rússlandi. Utanríkisráðuneytið þvertók fyrir afskipti af kosningum í Evrópu og sakaði meginstraumsflokka um að nota Rússland sem blóraböggul út af slæmu gengi í skoðanakönnunum.
Oksana Walter neitar því að hún sé útsendari á vegum Rússlands. Hún segist vera fædd í fyrrum Sovétríkinu Kazakhstan. Faðir hennar var Rússi og móðir hennar frá Úkraínu. Hún sé því ekki á móti neinu landi, hún sé á móti þjáningu barna. Hún segist fjármagna herferðina sjálf og hafi eins barist gegn þjáningu barna í átökum Ísrael og Palestínu. Reuters bendir á að skýrslurnar hafi meðal annars innihaldið kvittanir frá þýskri prentsmiðju sem útbjó veggspjöld fyrir herferðina. Kvittunin var stíluð á Oksana Walter. Reuters eru búin að sannreyna kvittunina.
Reuters greinir eins frá því að Oskana hafi fengið aðstoð frá manni sem heitir Yevgeny Bort, sem eins kemur frá Sovétríkjunum. Hann er tengdur rússneska fréttamiðlinum ANNA-News sem hefur einmitt fjallað mikið um herferð Oksana Walter, en Bort hefur meðal annars sent rússneska miðlinum myndir frá mótmælum í Berlín. Bort hefur stutt við herferðina með bæði fjárveitingum og ráðgjöf. Bort hefur eins fundað með Rússanum Adrei Bogdanov sem sá um almannatengsl fyrir flokk Rússlandsforseta, United Russia, þegar Vladimir Pútín tók fyrst við embætti skömmu eftir aldamótin. Bogdanov er líka yfir frímúrarasambandi Rússlands. Bort er gjaldkeri þýsk-rússneskrar deildar frímúrara í Berlín.
Nánar má lesa um málið hjá Reuters