Hjónin, sem eru á sextugsaldri, voru að busla í sjónum í góða veðrinu þegar hákarl réðst skyndilega á konuna. Mágur konunnar lýsir árásinni á vefnum GoFundMe en óhætt er að segja að um hrollvekjandi lesningu sé að ræða.
„Það sem átti að verða rólegt og endurnærandi frí fyrir bróður minn og konuna hans breyttist í það sem kalla mætti hreina martröð,“ segir hann.
Hann lýsir því að konan hafi farið út í sjóinn þar sem maðurinn hennar var fyrir og dýpið á þessum slóðum hafi ekki náð upp fyrir mitti.
Konan fann fyrst fyrir hákarlinum þegar hann rakst í fætur hennar og beit hana í lærið. „Hann kom svo aftur og þegar hún reyndi að setja báðar hendur fram fyrir sig, til að verjast hákarlinum, beit hann báðar hendurnar af henni – aðra við miðjan framhandlegginn og hina við úlnlið.
Eiginmaður konunnar brást skjótt við og náði að koma sér á milli konunnar og hákarlsins. Hákarlinn fór sína leið í kjölfarið en konan komst á þurrt við illan leik.
Meðfylgjandi mynd er frá söfnuninni á vef GoFundMe og þar sjást nærstaddir reyna að koma konunni til bjargar. Hún lifði árásina sem betur fer af og var flutt með sjúkraflugi til Kanada þar sem hún hefur þegar gengist undir aðgerð.
Árásin átti sér stað þann 7. febrúar síðastliðinn og hefur mágur konunnar hvatt sem flesta til að leggja söfnuninni lið. Þegar þetta er skrifað hafa rúmar tvær milljónir króna safnast fyrir hjónin.