„Vissirðu að raðmorðingi átti einu sinni heima í íbúðinni þinni,“ spurði blaðamaðurinn og hélt Feline í fyrstu að einhver væri að grínast í henni.
Síðar kom á daginn að fyrirspurn blaðamannsins átti við rök að styðjast, alræmdasti raðmorðingi í sögu Danmerkur átti eitt sinn heima í íbúðinni hennar, Dagmar Overby.
Dagmar fæddist árið 1887 en hún var dæmd fyrir að drepa níu börn á árunum 1913 til 1920. Talið er að fórnarlömbin hafi verið mun fleiri, eða allt að 25 talsins. Dagmar var dæmd til dauða árið 1921 en dómnum síðar breytt í lífstíðarfangelsi. Hún lést á bak við lás og slá árið 1929, 42 ára að aldri.
Feline hafði ekki hugmynd um þá ólýsanlegu hluti sem áttu sér stað í íbúðinni við Enghavevej 21. Dagmar tók að sér börn einstæðra mæðra sem gátu ekki séð börnum sínum farborða og í stað þess að hugsa um þau eða finna fyrir þau ný heimili drap hún þau.
Hún var handtekin í september 1920 eftir að ung móðir, Karoline Aagesen, fékk bakþanka eftir að hafa farið með tveggja mánaða gamla dóttur sína til hennar nokkrum dögum áður. Hún vildi fá dóttur sína aftur en Dagmar tjáði henni að það væri ekki hægt þar sem stúlkan væri komin í hendur nýrrar fjölskyldu.
Karoline fór til lögreglu sem knúði dyra á heimili Dagmar og komst þá upp um hina óhugnanlegu hluti sem fram fóru á heimilinu. Meðal annars fundust mannabein í brennsluofni á heimilinu. Dagmar játaði á sig níu morð en sem fyrr segir er talið að þau hafi verið fleiri.
TV2 Kosmopol fjallaði um málið á vef sínum í tilefni af bíómyndinni The Girl With the Needle, í leikstjórn Magnus von Horn, sem nú er sýnd í dönskum kvikmyndahúsum en myndin segir einmitt frá glæpum Dagmar. Þess má geta að myndin er tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin.
Í viðtalinu við TV2 segja þau Feline og Anders að þau séu ekki mjög hjátrúarfull og þó að íbúðin geymi myrka sögu hafi það ekki áhrif á þau.