AFP skýrir frá þessu og segir að 48 hafi greinst með mislinga í vesturhluta ríkisins, aðallega börn og ungmenni. Öll hin smituðu eru óbólusett eða óvíst hvort þau hafa verið bólusett. 13 liggja á sjúkrahúsi.
Amesh Adalja, hjá Johns Hopkins háskólanum, sagði í samtali við AFP að mesta hættan á faröldrum af þessu tagi sé í litlum samfélögum í Bandaríkjunum og það komi ekki á óvart að faraldurinn hafi brotist út á svæðinu þar sem lægsta bólusetningartíðnin í Texas er.
Dregið hefur úr bólusetningum barna í Bandaríkjunum og hefur sú þróun færst í aukana í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Margir höfðu þá efasemdir um bóluefnin gegn veirunni vegna þess hversu hratt þróun þeirra gekk fyrir sig. Einnig var mikið um dreifingu rangra upplýsinga um bóluefni á tíma heimsfaraldursins.
Á landsvísu var hlutfall bólusettra barna í fyrsta bekk grunnskóla komið undir 93% skólaárið 2023-2024. Markmið smitsjúkdómastofnunar landsins er að 95% barna séu bólusett.