Eftirtalda hluti á aldrei að setja í þvottavél:
Fatnaður sem er þakinn dýrahárum – Ef þú átt hund eða kött, þá hefurðu örugglega upplifað að hár af dýrinu setjast á fatnað. Það er slæm hugmynd að skella hári þöktum fatnaði beint í þvottavélina. Hárin geta safnast saman í klumpa og stíflað vélina og það getur kallað á dýra viðgerð eftir því sem segir í umfjöllun CHIP. Notaðu límrúllu eða þurrkara, með síu, til að fjarlægja hárin áður en fatnaðurinn er settur í þvottavél.
Viðkvæm efni og leður – Fatnaður úr alpaka, kasmír og silki þarfnast sérstakrar meðhöndlunar því þessi efni skemmast ef þau eru sett í þvottavél og geta aflagast og misst hluta af mýkt sinni. Leðurhúðaðir jakkar, buxur eða skór eiga heldur ekki að fara í þvottavél því efnið getur stífnað og sprungur geta myndast í því.
Kíktu vel í vasana – Mynt, lyklar og aðrir harðir hlutir, sem við eigum til að gleyma í vösum, geta valdið alvarlegum skemmdum á þvottavélinni.
Skór með málmi – Það er hægt að þvo suma strigaskó en ef þeir eru með einhverjum málmi, þá má ekki setja þá í þvottavél. Það verður að þvo þá í höndum.