fbpx
Fimmtudagur 20.febrúar 2025
Pressan

Hann var hetja á hvíta tjaldinu en það bjargaði honum ekki frá dularfullum og stór undarlegum dauðdaga

Pressan
Sunnudaginn 16. febrúar 2025 22:03

David Bacon. Mynd: Skjáskot/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í seinni heimsstyrjöldinni leitaði almenningur og hermenn víða um heim í hvers kyns afþreyingu til að fá þó ekki væri nema örstutt hlé frá stríðinu. Í Bandaríkjunum voru sérstaklega vinsælar kvikmyndir sem fjölluðu um bandaríska hermenn, njósnara eða aðra slíka aðila sem með djörfung og ráðsnilld höfðu betur í átökum við útsendara óvinaþjóðanna. Ein af þeim var The Masked Marvel sem frumsýnd var 1943. Myndin fjallaði um njósnara sem var með grímu fyrir andlitinu og ávallt klæddur í jakkaföt. Hin grímuklædda hetja glímir í myndinni við útsendara Japans sem ætla sér að valda usla í Bandaríkjunum með skemmdarverkum og öðrum illvirkjum. Með hlutverk hins grímuklædda undurs fór leikari að nafni David Bacon. Þegar tökur fóru fram sumarið 1943 var hann 29 ára gamall. Ferillinn varð þó ekki lengri því þremur vikum eftir að tökum lauk lést Bacon á dularfullan en um leið stór undarlegan hátt.

David Bacon hét upphaflega Gaspar Griswold Bacon Jr. Hann fæddist í mars 1914 og ólst upp í Massachusetts. Fjölskylda hans var vel stæð og hann skorti því ekkert efnislegt í uppvextinum. Hann útskrifaðist frá Harvard-háskólanum árið 1937. Bacon reyndi í kjölfarið að hasla sér völl sem leikari í New York og breytti fornafni sínu í David en átti erfitt með að finna hlutverk. Hann ákvað þá að freista gæfunnar í helstu borg kvikmyndaiðnaðarins, Los Angeles.

Þar kynntist hann leik- og söngkonunni Greta Keller sem var frá Austurríki og giftu þau sig 1942. Hún upplýsti síðar að bæði hefðu þau verið tvíkynhneigð og hefðu gifst ekki síst til að viðhalda þeirri ímynd að þau væru bæði gagnkynhneigð enda var það ekki liðið á þessum tíma að vera með aðrar kynhneigðir. Ljóst er þó að afar kært var á milli þeirra.

Byggð upp eins og sjónvarpsþáttur

Þetta sama ár, 1942, fékk Bacon fyrsta kvikmyndahlutverkið í myndinni Ten Gentlemen from West Point. Bacon var ekki í aðalhlutverki í myndinni en vakti athygli bæði leikstjóra og aðalleikara myndarinnar og í kjölfarið fjölmiðla. Hann þótti afar vandvirkur og leggja sig allan fram við að skila góðri frammistöðu.

Bacon þótti efni í leikara í aðalhlutverki. Hann þótti hafa útlitið með sér og í miðri seinni heimsstyrjöld var auðveldara að fá hlutverk þegar margir leikarar voru fjarverandi vegna stríðsins.

Hann lék í samtals sex kvikmyndum, yfirleitt í aukahlutverki en svo kom loks að því að hann fékk stærsta hlutverkið á ferlinum, sem grímuklædda undrið. Tvennum sögum fer þó af því hversu spenntur Bacon var fyrir hlutverkinu.

Þótt The Masked Marvel hafi verið kvikmynd var hún í raun byggð upp eins og sjónvarpsþáttaröð en ekki var óalgengt á þessum árum að kvikmyndum væri skipt í nokkra hluta sem síðan voru sýndir vikulega eða nokkur kvöld í röð í kvikmyndahúsum. Myndinni var skipt í 12 hluta sem allir höfðu upphaf og endi eins og sjónvarpsþáttur. Hver hluti var um 15 og hálf mínúta að lengd fyrir utan þann fyrsta sem var rétt yfir 26 mínútur.

Bölvunin

Grímuklædda undrið hét í myndinni í raun Bob Barton. Það sem þótti sérstakt við The Masked Marvel var að ekki var afhjúpað fyrr en í síðasta hlutanum að persónan að baki grímunni væri Bob Barton en áhorfendur höfðu þó fengið að kynnast honum. Síðar var hins vegar fullyrt að þegar grímuklædda undrið hafi sést í myndinni hafi þar verið á ferð áhættuleikarinn Tom Steele en annar leikari, Gayne Whitman, hafi talað inn á myndina og verið rödd undursins. David Bacon hafi hins vegar birst þegar undrið var ekki með grímuna á sér og var aðeins Bob Barton, fyrir utan það þegar undrið tekur grímuna af sér í lokaatriði myndarinnar. Þá hafi það verið Bacon.

Seinna var sagt að það hlyti að hafa hvílt einhvers konar bölvun á hlutverki Bob Barton en Bacon var raunar fimmti leikarinn sem ráðinn var í hlutverkið en hinir fjórir höfðu allir slasast það mikið að þeir urðu að draga sig í hlé. Við tökur var einnig nokkuð um slys en Bacon slapp þó ómeiddur en grínaðist með það á tökustað að líklega ætti hann að gæta sín því hann gæti slasast við að aka heim til sín í lok dags.

Vart gat hann grunað hversu sannspár hann átti eftir að verða.

Helgin örlagaríka

Tökum á The Masked Marvel lauk 18. ágúst 1943. Þremur vikum síðar, föstudaginn 10. september, héldu Bacon og kona hans Greta Keller fjölmennt matarboð á heimili sínu í Hollywood-hæðum í Los Angeles. Keller gekk þá með fyrsta barn þeirra hjóna. Hún sá um matseldina en næsta kvöld var aftur efnt til matarboðs og þá sá Bacon um matseldina en hann bar fram uppáhaldið sitt, hlaup og eggjakökur.

Sunnudagurinn 12. september rann upp og eins og svo oft áður og síðar var hlýtt í veðri í Los Angeles. Bacon langaði að fara á ströndina en læknir hafði mælt eindregið með því að kona hans yrði heima og tæki því rólega þar sem meðgangan hafði verið henni erfið. Þau fóru því að skrifa nokkur sendibréf en þegar komið var fram yfir hádegi lögðu þau sig saman í hjónarúminu. Þegar Keller vaknaði var maður hennar á bak og burt.

Um klukkan 17 þennan dag sást rauðleitum sportbíl vera ekið greitt og afar ógætilega eftir götu nokkurri í Venice sem er hverfi í vesturhluta Los Angeles. Bílnum var ekið á endanum út af veginum og stöðvaðist hann loks á svæði þar sem ræktaðar voru baunir. Út úr bílnum staulaðist maður sem var ekki klæddur í neitt annað en bláa sundskýlu. Hann féll fljótlega til jarðar og var alblóðugur. Vitni þustu á staðinn og maðurinn grátbað hástöfum um hjálp. Tíu mínútum síðar var maðurinn, David Bacon, látinn.

Hvað gerðist eiginlega?

Ljóst þótti að David Bacon hefði verið myrtur. Það tókst hins vegar aldrei að upplýsa hvað hafði eiginlega hafði gerst á milli þess sem hann lagði sig heima hjá sér með eiginkonunni og þar til hann endaði örendur í baunaræktinni nokkrum klukkutímum síðar.

Hann var með verðmæti á sér og því ljóst að rán bjó ekki þarna að baki.

Gögn málsins reyndust hins vegar mótsagnakennd. Bacon var krufinn og niðurstaðan var að hann hefði hlotið stungusár, eftir hníf, þegar hann var að beygja sig fram, hugsanlega þegar hann var að losa handbremsuna á bíl sínum. Það voru hins vegar engin merki um átök í bílnum og þar fundust engin önnur fingraför en eftir Bacon sjálfan.

Frásagnir vitna voru einnig mótsagnakenndar, sum sögðust hafa séð annan karlmann og konu í bílnum en önnur að það hefði bara verið kona.

Hnífurinn lenti í öðru lunga Bacon en réttarmeinafræðingurinn sagði sárið hafa verið þess eðlis að Bacon hefði getað keyrt bílinn í um 20 mínútur áður en hann loks gat ekki meir. Hafi einhver verið með honum í bílnum var því nægur tími fyrir viðkomandi til að sleppa.

Dularfulla dagbókin

Fjölmiðlar sýndu málinu mikinn áhuga. Þeir urðu enn æstari þegar skýrt var frá því að Bacon hefði haldið dagbók sem skrifuð var á dulmáli en dagbók af slíku tagi kom einmitt við sögu í The Masked Marvel.

Skömmu fyrir dauða Bacon höfðu skemmdir verið unnar á Cadillac blæjubíl hans. Keller sagði lögreglunni að Bacon hefði sagt henni mismunandi sögur af því hvar þetta hefði gerst. Á endanum skipti hann bílnum út fyrir notaðan Rolls Royce bíl og rauðleita sportbílinn. Mögulega til að villa um fyrir einhverjum sem hann taldi vilja sér illt.

Þremur mánuðum fyrir dauða sinn hafði Bacon gert nýja erfðaskrá en samkvæmt henni arfleiddi hann eiginkonuna að öllum eignum sínum. Það verður að teljast óvenjulegt af svo ungum manni að spá í erfðaskrá. Mögulega taldi hann líf sitt í hættu en kannski vildi Bacon bara sýna fyrirhyggju úr því að barn var á leiðinni.

Íbúðin

Við rannsókn málsins kom í ljós að Bacon hafði nokkrum vikum fyrir andlátið leigt litla stúdíóíbúð annars staðar í borginni. Keller sagði lögreglunni að hún hafi átt að vera fyrir iðnaðarmann sem ætlunin hafi verið að ráða til að hjálpa Bacon að stækka hús þeirra. Í íbúðinni fannst ekkert annað en óhreint leirtau, kaffi, spagettí og nokkrar bækur. Ljóst virtist því að einhver hafði verið í íbúðinni.

Kona sem bjó í sama húsi og íbúðin var í tjáði lögreglunni að hún hefði aldrei orðið vör við neina manneskju í þessari íbúð fyrr en 12. september, daginn sem Bacon dó.

Leigusalinn sagði að 10. september hefði hann orðið var við mannaferðir í íbúðinni og hann því ákveðið að banka upp á til að innheimta leiguna. Bacon hafi komið til dyra. Hann hafi ekki verið með peninga á sér en lofað að koma þeim til skila í póstkassa leigusalans, sem hann hafi staðið við.

Hver var maðurinn?

Leigusalinn, Charles Hendricks, sagði hins vegar að Bacon hafi ekki verið einsamall í íbúðinni. Þar hafi einnig verið maður sem hann kunni ekki deili á. Maðurinn hafi verið grannur og dökkur yfirlitum, litið jafn vel út fyrir að vera af erlendum uppruna. Hendricks sagði manninn hafa verið afar reiðilegan á svipinn en ekki sagt orð og Bacon hafi ekki kynnt þá.

Lýst var eftir dularfulla reiða manninum en án árangurs.

Í viðtali við dagblað 10 dögum eftir dauða Bacon sagðist maður nokkur, Blakely Clifford Patterson, hafa verið vinur leikarans látna og hafa ásamt honum hitt dularfullan reiðan mann á hóteli. Að morgni 12. september hafi Bacon síðan hringt og beðið hann að koma með sér til að hitta hinn ónefnda mann. Bacon hafi sagt manninn hafa í hótunum og reynt að kúga út úr sér peninga. Patterson sagðist hins vegar ekki hafa komist vegna vinnu.

Þegar lögreglan ræddi við Patterson kom hins vegar fljótt í ljós að hann hafði logið öllu saman og hafði ekkert þekkt Bacon. Patterson gerði þetta að sögn til að vekja á sér athygli. Lögreglan var því enn engu nær um dauða leikarans.

Hver átti peysuna?

Annar maður vildi ólmur játa morðið á Bacon en ljóst þótti að játningin var mótsagnakennd og ótrúverðug.

Í bíl Bacons fannst hins blá peysa sem blasti við að hafa verið of lítil til að leikarinn passaði í hana. Ljós hár og litlar fuglafjaðrir fundust á peysunni en Bacon var sannarlega ekki ljóshærður. Peysan þótti líkjast þeim sem sjá mátti sjómenn gjarnan klæðast og lögreglan tjáði fjölmiðlum að líklegt væri að hún hefði verið í eigu morðingja Bacon.

Tvítugur maður, Glenn Erwin Shaum, var handtekinn. Hann hafði gerst liðhlaupi úr sjóhernum og Bacon hafði ráðið hann sem garðyrkjumann en fljótlega hætt við ráðninguna. Shaum var hins vegar með pottþétta fjarvistarsönnun hann hafði varið stórum hluta 12. september með eiginkonu sinni og vitni gátu staðfest það. Hann var því ekki í neinni aðstöðu til að myrða Bacon.

Óupplýst

Lögreglan í Los Angeles stóð því á gati og hefur til þessa dags ekki tekist að upplýsa morðið á David Bacon. Samtöl við vini hans, ættingja og eiginkonu vörpuðu í raun ekki frekara ljósi á málið. Lögreglumenn voru ekki vissir hvort væri líklegra að Bacon hafi þekkt morðingjann eða verið myrtur af sér alls ókunnugum einstaklingi. Getgátur hafa verið uppi um að hann hafi verið myrtur af fyrrum elskhuga sínum eða puttaferðalangi en Bacon átti það oft til að gefa ókunnugu fólki far.

Ekkja Bacon, Greta Keller, syrgði mann sinn mjög og átti erfitt með að halda áfram með lífið án hans. Henni var svo brugðið þegar henni var tjáð hvað hafði gerst að það endaði með því að hún missti fóstrið og harmur hennar varð því enn meiri. Hún reyndi sjálf að upplýsa morðið á manni sínum en hafði ekki erindi sem erfiði. Sjálf lést hún 1977.

Eftir því sem tíminn hefur liðið hefur dulúðin yfir David Bacon og örlögum hans orðið sífellt meiri. Ólíklegt virðist að málið upplýsist úr þessu en eftir situr að ungur maður sem átti mögulega glæstan feril fram undan á hvíta tjaldinu fékk ekki tækifæri til þess og er í dag helst minnst fyrir hinn dularfulla og um leið stór undarlega dauðdaga sinn.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 18 klukkutímum

Taívanar taka hart á fyrirtækjum sem hjálpa landsmönnum að sækja um kínversk skilríki

Taívanar taka hart á fyrirtækjum sem hjálpa landsmönnum að sækja um kínversk skilríki
Pressan
Fyrir 20 klukkutímum

Björguðu rúmlega 1.000 manns úr svikatölvuverum nærri Taílandi

Björguðu rúmlega 1.000 manns úr svikatölvuverum nærri Taílandi
Pressan
Í gær

Eignaðist barn í neðanjarðarlest í New York – Farþegar komu til aðstoðar

Eignaðist barn í neðanjarðarlest í New York – Farþegar komu til aðstoðar
Pressan
Í gær

Hverjar geta afleiðingarnar orðið ef 2024 YR4 lendir í árekstri við jörðina? – Þetta vitum við núna

Hverjar geta afleiðingarnar orðið ef 2024 YR4 lendir í árekstri við jörðina? – Þetta vitum við núna
Pressan
Fyrir 2 dögum

Jerry Seinfeld: „Mér er alveg sama um Palestínu“

Jerry Seinfeld: „Mér er alveg sama um Palestínu“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Lenti í árekstri á Teslunni sinni en hún endaði á að þurfa að borga fyrirtækinu bætur

Lenti í árekstri á Teslunni sinni en hún endaði á að þurfa að borga fyrirtækinu bætur
Pressan
Fyrir 3 dögum

Sérfræðingar segja að þessi tvö „morgun-einkenni“ geti verið merki um krabbamein

Sérfræðingar segja að þessi tvö „morgun-einkenni“ geti verið merki um krabbamein
Pressan
Fyrir 3 dögum

Nokkur ráð til að halda músum frá heimilinu

Nokkur ráð til að halda músum frá heimilinu