Bresku Alzheimerssamtökin segja að enn sé engin lækning þekkt við Alzheimers en það sé mikilvægt að þekkja snemmbúin merki og einkenni elliglapa.
Hér fyrir neðan eru upplýsingar um fimm snemmbúin merki elliglapa sem ekki má hunsa.
Breytingar á persónuleika – rannsókn, sem Angelina Sutin hjá Flórída ríkisháskólanum stýrði, leiddi í ljós að fólk, sem glímir við elliglöp, gengur í gegnum persónuleikabreytingar áður en andleg hnignun verður sýnileg. Þetta getur sýnt sig í því að sjúklingurinn verður ekki eins mannblendinn, ekki eins vingjarnlegur og áður og sýnir minni ábyrgðartilfinningu. Það getur verið auðveldara að taka eftir breytingum á borð við að viðkomandi haldi sig til hlés á félagslega sviðinu eða umgengst færri en að taka eftir minnistapi.
Vandamál við akstur – Akstur krefst ýmissa hæfileika á andlega sviðinu og erfiðleikar við akstur geta verið snemmbúið merki um andlega hnignun að sögn Ganesh Babulal hjá Washington háskóla. Breytingar á borð við skerta viðbragðsgetu eða aukin hætta á óhöppum geta bent til vandamála í taugakerfinu.
Missir á lyktarskyni – Missir lyktarskyns er oft snemmbúið merki um taugasjúkdóma á borð við Alzheimers, Lewy body-elliglöp og Parkinsons. Þessir sjúkdómar hafa snemma áhrif á lyktarskynið og það getur verið mikilvæg vísbending um tilvist sjúkdómsins og það löngu áður en önnur einkenni koma fram.
Svefnvandamál – Alvarleg svefnvandamál á borð við að vakna mjög snemma eða að geta ekki haldið sér vakandi að degi til, geta tengst elliglöpum.
Fjárhagsvandræði – Vandræði á borð við að gleyma að borga reikninga, hlutir keyptir án umhugsunar eða fjárhagsleg einfeldni geta bent til breytinga á hugrænni getu. Taugafræðingurinn Winston Chiong segir að skyndilega fjárhagsvandræði geti verið snemmbúið merki um elliglöp.