Bandaríkjamenn telja að meðaltali að fólk þurfi að eiga 2,5 milljónir dollara til að teljast ríkt, það svarar til um 355 milljóna króna. Yahoo Finance skýrir frá þessu og segir að þetta sé 14% hærri upphæð en á síðasta ári.
En það er mismunandi hvaða skilning fólk leggur í það að vera ríkur. Í huga sumra snýst það um að lifa án þess að hafa fjárhagslegar áhyggjur. Sumir telja ríkidæmi vera að eiga hlutabréf eða fasteignir sem skila arði. Í huga annarra eru það öruggar tekjur eða sparnaður sem tryggir fjárhagslegt sjálfstæði til æviloka.
Hvað fólki finnst vera ríkidæmi, tengist stöðu fólks í lífinu og því hvar það býr. Í Bandaríkjunum telst til dæmis nauðsynlegt að eiga bíl til að geta átt möguleika á góðu starfi. 86% Bandaríkjamanna eiga bíl. Í mörgum öðrum löndum þykir það lúxus að eiga bíl. Í Kína eiga 22% landsmanna bíl og á Indlandi er hlutfallið 3%.