Séð og heyrt í Noregi greinir frá þessu og fjallar meðal annars Mail Online um málið á vef sínum í dag. Marius er sonur Mette Marit, eiginkonu Hákonar, úr fyrra sambandi og því stjúpsonur krónprinsins.
Þar sem Marius er aðeins stjúpsonur Hákonar gegnir hann ekki konunglegum skyldum og er ekki í erfðaröð krúnunnar. Málið hefur þó valdið titringi innan fjölskyldunnar enda er þetta langt því frá fyrsta málið sem kemur upp þar bornar eru alvarlegar sakir á hann.
Í ágúst í fyrra var til dæmis greint frá því að hann hefði verið handtekinn vegna gruns um ofbeldi gegn kærustu sinni. Eftir að fjallað var um það mál steig svo önnur fyrrverandi kærasta fram og lýsti andlegu og líkamlegu ofbeldi meðan á sambandinu stóð.
Marius er sagður hafa nauðgað Linn í gleðskap 2018 en hún mun hafa verið meðvitundarlaus þegar brotið var framið. Mun lögregla meðal annars hafa myndband undir höndum sem sýnir meint brot hans. Marius var rúmlega tvítugur þegar atvikið átti sér stað og Linn rúmlega þrítug.
Norskir fjölmiðlar greina frá því að myndefni, þrjár hreyfimyndir og tíu ljósmyndir, sem sýnir meinta nauðgun hafi fundist í tölvu Mariusar.
Linn birti yfirlýsingu á Snpachat-reikningi sínum þar sem hún sagði að fréttin í Séð og heyrt væri rétt. Að öðru leyti taldi hún ekki rétt að tjá sig um málið.