Níðingurinn hét Ronald Evans. Hann hafði áður hlotið dóma fyrir nauðganir og morð en flutti til Bristol þegar hann var látinn laus úr fangelsi. En lögreglan þar vissi ekki hver hann var og lagði mikla vinnu í að ná honum.
Karlkyns lögreglumenn settu á sig ljósar hárkollur, fóru í sokkabuxur, háhælaða skó og úttroðna brjóstahaldara og gengu um götur til að reyna að egna Evans. Lögreglukonur voru einnig sendar út á götu óeinkennisklæddar til að reyna að egna hann til árása. Gekk aðgerðin undir heitinu „Operation Argus“.
The Independent segir að kvöld eftir kvöld hafi dulbúnir lögreglumenn gengið um götur í von um að handsama ofbeldismanninn. Talið var að hann æki um á gulri Ford Capri bifreið.
Það var síðan síðla nætur þann 23. mars 1979 sem Evans gekk í gildruna.
24 ára nýliði í lögreglunni, Michelle Leonard, var þá á gangi þegar Evans réðst á hana og greip um háls hennar og sagði: „Ef þú öskrar, þá drep ég þig.“
Þegar hún rifjaði þetta upp í samtali við The Independt sagði hún að mikil hræðsla hafi ríkt á þessum tíma. Oft hafi verið boðað til mótmæla og konur hafi verið hvattar til að vera ekki einar á ferð að kvöld- og næturlagi.
Leonard fékk það hlutverk að ganga fyrir fram ákveðna leið nærri stöðum þar sem Evans hafði áður látið til skara skríða gegn konum.
Lögreglumenn vöktuðu leiðina, lágu í felum í görðum og hlustuðu á talstöðvar sínar.
Leonard sagði að lögreglumönnunum hafi verið frjálst að hætta þátttöku sinni í þessu verkefni ef þeim fannst þeir vera í hættu.
„Ég var rétt komin inn á Chantry Road þegar ég heyrði í talstöðinni að gula Caprinum hefði verið ekið upp að Good Food og að „Ökumaðurinn væri að fylgjast með Michelle“. Ég gekk inn á myrkan hluta Clifton og var við að ganga inn á Chertsey Road þegar varðstjórinn sagði: „Bílstjórinn er farinn út úr bílnum. Hann eltir Michella á fæti“. Það var smá hlé og síðan heyrðist: „Takið öll eftir, þessi maður er með ævilangan dóm á bakinu fyrir morð en er á reynslulausn. Hann hefur áður verið dæmdur fyrir nauðgun“. Ég hugsaði með mér hvort ég ætti að hætta eða hvort ég ætti að halda áfram og hugsaði með mér, nei, ég verð að komast undir ljósastaur. Ég heyrði fótatak hans, þetta var í lagi á meðan ég heyrði fótatakið. Um leið og ég kom inn í ljósgeislann, heyrði ég ekki lengur í honum. Ég sneri mér við og þá var hann við öxl mér og greip um hálsinn, um handlegginn og sagði: „„Ef þú öskrar, þá drep ég þig.“ og byrjaði að draga mig aftur inn í garðinn.“
Við þetta þustu lögreglumenn úr felum sínum og bílum og Evans áttaði sig á að hann hafði verið gripinn glóðvolgur. Hann kýldi Leonard þá, hrinti henni og hljóp af stað. Hann komst ekki langt áður en hann var handtekinn.
Evans, sem var 38 ára, var sakfelldur fyrir að hafa nauðgað fimm konum og 2015 var hann enn á ný dæmdur fyrir að hafa nauðgað konum, að þessu sinni tveimur, og hlaut þá 10 ára dóm.
Hann var látinn laus úr fangelsi í nóvember 2018 en braut enn á ný af sér og hefur setið í fangelsi síðan 2023. Hann er nú á níræðisaldri og mun væntanlega eyða því sem hann á eftir ólifað í fangelsi.