„Ég tel ekki að við eigum í stríði en við lifum heldur ekki lengur á friðartímum,“ sagði Andre Bodemann, hershöfðingi, að sögn Sky News og Daily Express.
Fyrir árslok ætla Þjóðverjar að vera búnir að koma sex nýjum herdeildum á laggirnar. Verða 6.000 til 8.000 hermenn í hverri.
Bodemann sagðist ekki eiga von á skriðdrekaorustum í norðurhluta Þýskalands eða að rússneskir fallhlífahermenn lendi í Þýskalandi. Hins vegar verði Þjóðverjar að verja innviði á borð við hafnir, brýr og orkufyrirtæki gegn skemmdarverkum.
Frá lokum kalda stríðsins hefur verið fækkað um 40% í þýska hernum en í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu hefur dæmið snúist við og nú er verið að byggja herinn upp af krafti.
Nú eru 179.000 hermenn við störf en búið á að vera að fjölga þeim í 203.000 fyrir 2031.