Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá þessu en atvikið átti sér stað í borginni Daejeon síðdegis á mánudag. Kennarinn, kona á fimmtugsaldri, mun hafa játað á sig verknaðinn í yfirheyrslum hjá lögreglu.
BBC segir frá því að konan hafi verið í veikindaleyfi eftir að hafa glímt við þunglyndi. Hún sneri aftur til starfa seint á síðasta ári, en þá hafði læknir úrskurðað hana hæfa til að vera í vinnu og mun hann hafa neitað að framlengja veikindavottorð hennar.
Á þeim stutta tíma sem konan hafði unnið eftir áramót hafði kastast í kekki milli hennar og annars kennara við skólann sem endaði þannig að konan tók kollega sinn hálstaki. Eftir það atvik mælti skrifstofa skólamála á svæðinu með því að konan yrði send í leyfi.
Konan er sögð hafa komið vopnuð í skólann þennan dag og haft í hyggju að skaða sjálfa sig og nemanda við skólann.