Donald Trump er tiltölulega nýtekinn við eftir fjögurra ára fjarveru úr Hvíta húsinu og er þegar farinn að láta að sér kveða.
Trump var í viðtali við Fox News um helgina þar sem fréttamaðurinn Bret Baier spurði forsetann hvort hann sæi fyrir sér að varaforsetinn JD Vance yrði forsetaefni Repúblikana í kosningunum 2028.
„Nei, en hann er vel hæfur,“ svaraði Trump að bragði. „Við erum með marga hæfa einstaklinga. Mér finnst hann vera að standa sig mjög vel en við erum bara rétt að byrja,“ sagði Trump.
Vance er aðeins fertugur að aldri og er þriðji yngsti einstaklingurinn í sögu Bandaríkjanna til að taka við embætti varaforseta.
Samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna getur forseti aðeins verið forseti í tvö kjörtímabil, samtals átta ár, og því verður nýr forseti kjörinn í næstu kosningum.
Trump hefur að vísu sjálfur látið að því liggja að hann vilji breyta stjórnarskránni sem myndi gera það að verkum að hann gæti gegnt embætti í samtals 12 ár.