Fjölskyldan dvaldi á Viva Dominicus Beach-hótelinu í desember 2023 þar sem allt var innifalið. Eftir að fjölskyldan snæddi kvöldverð á hlaðborði hótelsins veiktust eiginkona Stephens, hin 41 árs gamla April Gougeon, og 8 ára sonur þeirra, Oliver Gougeon, heiftarlega.
Ástand þeirra hélt áfram að versna og létust þau bæði á sjúkrahúsi nokkrum dögum síðar. Læknar töldu að „aukaverkanir sem tengdust matareitrun“ hefðu dregið þau til dauða.
Í stefnu sinni, sem er meðal annars beint gegn hótelinu og kanadísku ferðaþjónustufyrirtækjunum Air Transat Holidays A.T. Inc., og Transat Tours Canada, er farið fram á tæpan milljarð króna í bætur.
Kemur fram í stefnunni að hótelið hafi ekki tryggt að hreinlætis væri gætt varðandi meðhöndlun matvælanna. Þá hafi hótelið ekki brugðist nógu skjótt við þegar ljóst var að veikindin væru alvarleg.
Stephen og April komu til Dóminíska lýðveldisins, ásamt sonum sínum, þeim Oliver og Wesley, þann 28. desember 2023. Eftir að hafa borðað á hótelinu þetta fyrsta kvöld veiktust þau öll og köstuðu meðal annars upp. Stephen og Wesley hresstust á nokkrum dögum en ástand April og Oliver hélt áfram að versna.
„Við skipulögðum þessa ferð svo fjölskyldan gæti fengið hvílt og hlaðið batteríin. Mér datt ekki í hug að eitthvað þessu líkt gæti gerst,“ segir Stephen.