Nancy Campbell-Panitz var einstæð móðir, róleg og hógvær. Henni líkaði illa við að myndir væru teknar af henni og því má sæta furðu að hún hafi þegið boð um að mæta í spjall ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum, Ralf Panitz, og ástkonu hans, í vinsælan og umdeildan þátt Jerry Springer.
Nancy sló þó til en gekk af sviðinu þegar hún áttaði sig á því hvað framleiðendurnir vildu frá gestum þáttarins, heiftarlega og fjöruga baráttu fyrir framan áhorfendur í sal, sem síðan yrði sýnd í sjónvarpi.
Nokkrum vikum síðar, daginn sem þátturinn var loksins sýndur í sjónvarpinu, var Nancy myrt af sínum fyrrverandi. Ralf fór heim til Nancy, stuttu eftir að hún hafði fengið nálgunarbann á hann, og barði hana og kyrkti hana til bana.
„Að sjá hana þarna uppi á sviðinu líta út eins og dádýr sem er gripin í framljósum bifreiðar,“ rifjar Jeffrey, sonur Nancy, upp í nýrri heimildarmynd, Jerry Springer: Fights, Camera, Action, sem var frumsýnd á Netflix 7. janúar. „Ég vildi bara að ég gæti farið til baka og sagt við hana: „Ekki gera þetta.“
Morðið á Nancy er að öllum líkindum alræmdasta atvikið tengt gestum þátta Jerry Springer. Þættirnir urðu oftast hreinlega að sirkus, þar sem atburðarásin varð til þess að deilur gesta stigmögnuðust í munnleg skítköst og líkamlegar deilur.
Í heimildarmyndinni er farið yfir hvernig þáttur Springer komst í efsta sæti vinsældalista seint á tíunda áratugnum undir stjórn framleiðandans Richard Dominick og þáttastjórnandans Jerry Springer. Segja má þá félaga brautryðjendur „ruslasjónvarps“ sem réð ferðinni í sjónvarpi á þeim tíma. Þættirnir náðu að toppa spjallþáttadrottningu dagsjónvarps, Oprah Winfrey, í vinsældum.
Þættirnir nutu feikna vinsælda, enda dýrkuðu áhorfendur að fylgjast með drama milli nátengdra aðila, og urðu þáttaraðirnar alls 27 á árunum 1991 til 2018 og þættirnir 3891. Þættirnir byrjuðu sem hefðbundnir viðtalsþættir í anda Oprah Winfrey og Ohil Donahue sem áhorfendur voru vanir og þekktu vel. Springer, sem lést árið 2023, hóf feril sinn í stjórnmálum sem borgarstjóri Cincinnati á áttunda áratugnum og bauð sig fram til ríkisstjóra Ohio áður en stjórnmálaferill hans kláraði og sjónvarpsferilinn tók við. Á níunda áratugnum sneri Springer sér að útsendingum og varð margverðlaunaður sjónvarpsskýrandi áður en hann flutti til Chicago til að byrja með spjallþátt sinn. En það var ekki fyrr en Dominick, sem hafði umsjón með þróun þáttarins í æsifréttaformið, með fjölmörgum gestum, allt frá fólki sem átti í ástarþríhyrningum til Ku Klux Klan-meðlima, að þættirnir fóru að raka inn áhorfstölum.
„Arfleifð Jerry Springer þáttanna er sú að það eru engar reglur lengur,“ segir Robert Feder, fjölmiðlagagnrýnandi Chicago, sem fjallaði um þættina meðal þeir voru í sýningum. „Það gerir þáttinn að einum þeim áhrifamesta sem sýndur hefur verið í sjónvarpi.“
„Sjónvarpshandbók (TV Guide) útnefndi Jerry Springer Show sem versta sjónvarpsþátt allra tíma,“ segir Feder. „Þeir fóru að samsama sig þessum stimpli og notuðu hann sem heiðursmerki.“
Tobias Yoshimura, framleiðandi Springer þáttanna í nokkur ár segir í heimildarmyndinni, að það sé ekkert leyndarmál að framleiðendur hafi oft þjálfað gesti sína til að undirbúa sig fyrir „gladiator-vettvanginn“ sem þættirnir voru.
Yoshimura minnist þess að hafa strunsað inn í græna herbergið og kastað stólum sem aðferð til að koma gestum í uppnám áður en þeir komu fram í þættinum. Hann sagði þó einnig mikilvægt að koma vel fram við gesti til að fá það besta út úr þeim.
„Gestur sagði einu sinni við mig: „Ég veit hvað þú vilt og þú keyptir handa mér góða steik í gærkvöldi í kvöldmat og ég ætla að sjá um þig,“ rifjar Yoshimura upp. ,,Þeir tóku hann í bakaríið í þættinum og þetta var sá þáttur sem fékk mesta áhorfið það árið og skilaði mér stöðuhækkun.“
Árið 2000 var hins vegar farið að síga á seinni hlutann og þættirnir höfðu fengið á til neikvæða gagnrýni í nokkur ár vegna margra umdelda þátta. Orðstír þáttanna fékk síðan rothögg þegar Nancy var myrt í júlí árið 2020.
Ralf Panitz var dæmdur fyrir morðið á fyrrum eiginkonu sinni. Þegar dómari dæmdi Panitz í lífstíðarfangelsi vísaði dómari í Springer-þáttinn og formælti bæði stjórnandnum Springer og framleiðendum þáttanna.
Jeffrey, sonur Nancy, stefndi Springer og framleiðendum þáttarins í tveimur aðskildum málum vegna andláts móður sinnar. Hann lét þó málin niður falla án þess að semja um bætur, eftir að dánarbú Scott Amedure, tapaði málshöfðun gegn öðrum „ruslsjónvarpsþætti“, The Jenny Jones Show, sem Amedure kom fram í áður en hann lést.
Yoshimura, sem hætti vinnu við Springer þættina árið 2003 eftir að hafa sagt að vinnan við þættina væri að „drepa hann“ og Dominick neita báðir í heimildarmyndinni að þátturinn hafi haft eitthvað með morðið á Nancy að gera. Jeffrey telur aftur á móti að móðir hans hafi verið blekkt áður en hún kom fram í þættinum.
„Ég held að þeir hafi aldrei verið dregnir til ábyrgðar fyrir neitt,“ segir Jeffrey. „Fólk horfir bara á þennan þátt og hugsar. „Ó, þetta er eðlilegt.“ Það er það ekki.“
Hér fyrir neðan má sjá tvo ótengt brot úr þáttum Springer, sem sýna vel hvernig þættirnir voru og spjallið þróaðist í þáttunum.