Cameron var handtekinn í Fort Hood herstöðinni í Texas rétt fyrir jól. Hann er sakaður um að hafa stolið notandagögnum frá símafyrirtækjunum AT&T og Verizon og að hafa stært sig af því í spjallhópum tölvuþrjóta að vera með með símtalaskrá Donald Trump og Kamala Harris í fórum sínum.
Sérfræðingar hafa rakið stafræn fótspor hans og afhjúpað dulnefni hans á netinu en það er Kiberphant0m. Það var einmitt þetta sem leiddi til handtöku hans í Fort Hood.
Í skýrslu frá tölvuöryggisfyrirtækinu KrebsOnSecurity er fjallað um það sem Cameron tók sér fyrir hendur á netinu. Einnig er vitnað í samtöl við ættingja hans og vísað í leynileg dómskjöl en allt þetta varð til þess að hann var handtekinn. Mozilla skýrir frá þessu.
Stafræn fótspor
Cameron er sakaður um að hafa selt notandagögn úr stórum gagnaleka hjá AT&T, einum þeim stærsta í Bandaríkjunum.
Hann er einnig sakaður um að hafa verið með notandagögn frá Verizon í fórum sínum og að hafa stært sig af að vera með símtalaskrá Donald Trump og Kamala Harris í fórum sínum. Hann er sagður hafa stært sig af þessu í spjallhópum tölvuþrjóta auk þess sem hann sagðist hafa brotist inn í tölvukerfi minnst 15 símafyrirtækja til að stela notandagögnum. En þessar færslur hans gerðu að verkum að KrebsOnSecurity fékk áhuga á honum og vildi komast að hver stæði á bak við dulnefnið Kiberphant0m.
Ein mistök
Allison Nixon, yfirmaður hjá netöryggisfyrirtækinu Unit 221B, var einnig meðal þeirra sem komust að því hver maðurinn á bak við Kiberphant0m er. Hún segir að Cameron hafi gert ein mistök sem urðu honum að falli.
Hægt var að tengja skrif hans frá 10. nóvember við virkni á Telegramrás þann 6. desember. Í kjölfarið var Cameron handtekinn.