Niðurstöður nýrrar rannsóknar við Tækniháskóla Kaliforníu gefa til kynna að hraði hugsunar í mannsheilanum sé töluvert minni en miðlungsgóðrar þráðlausrar nettengingar (e. wi-fi).
Fjallað er um þetta á vefsvæði tímarits Smithsonian-stofnunarinnar. Fólk þarf þó ekki að örvænta um að þetta sé enn eitt merkið um að tölvurnar séu á góðri leið með að taka völdin. Hraði skynjunar heilans og hversu hratt hann safnar upplýsingum um það sem má sjá, heyra, snerta og lykta af, í umhverfinu sem blasir við okkur, er um 100 milljón sinnum hraðari en hugsunin.
Meðalhraði niðurhals í venjulegri þráðlausri nettengingu í Bandaríkjunum er um 260 megabæt á sekúndu. Hraði hugsunar mannsheilans er hins vegar aðeins um 10 bæt á sekúndu sem er ígildi 0,000001 megabæts á sekúndu.
Markus Meister vísindamaður, við Tækniháskóla Kaliforníu (e. California Institute of Technology), sem kom að rannsókninni segir þessa niðurstöðu skapa ákveðið mótvægi við þá lífseigu ímynd að mannsheilinn sé afar kröftugur og flókinn.
Vísindamennirnir komust að þessum niðurstöðum sínum með því að greina niðurstöður annarra rannsókna um hversu hratt manneskjur geta unnið ýmis verkefni til dæmis að vélrita texta á tölvu. Notuðu þeir þessar niðurstöður til að reikna út hversu hratt þátttakendur í þessum rannsóknum hugsa og vinna úr upplýsingum.
Niðurstöðurnar benda einnig til að hreyfingar manna séu ekkert hægari en hugsunin og séu því ekki að tefja fyrir.
Eins hæg hugsun og úrvinnsla upplýsinga er hjá mannfólki er það þeim mun fljótara að taka við upplýsingum í gegnum skynjun líkamans. Öll skynjunarfæri líkamans geta tekið við magni upplýsinga sem nemur um 1o milljörðum bæta á sekúndu, en það eru 10.000 megabæt.
Heilinn ræður því ekki við að vinna úr nema litlum hluta af þessu upplýsingamagni á hverri sekúndu.
Marcus Meister segir þar með ljóst að heilinn sleppi því að vinna úr töluverðu magni af upplýsingum sem skynfærin nemi. Tilgáta vísindamannanna sé sú að mannslíkaminn sé byggður fyrir fyrri tíma þegar upplýsingamagnið sem fólk þurfti að vinna úr var ekki nándar nærri eins mikið og í dag.
Það virðist því sem að innra með okkur sé náttúruleg hindrun við að vinna úr upplýsingum.
Bent hefur verið á að rannsóknin taki bara til tiltekinna verka sem þátttakendur hafi ákveðið að framkvæma en líti fram hjá því sem sé í gangi í undirmeðvitund heilans. Vísindamaður sem kom ekki að rannsókninni segir að ef horft hefði verið til hraða hugsunar og úrvinnslu upplýsinga við til dæmis göngu og kyrrstöðu hefðu niðurstöðurnar sýnt fram á meiri hraða.
Að hugsa svona hægt þarf þó ekki að vera slæmt en aðrar rannsóknir hafa gefið til kynna að hægari úrvinnsla upplýsinga auki líkurnar á því að fólk muni þær. Til dæmis aukast líkurnar á því að við munum upplýsingar ef við skrifum þær niður með blýanti eða penna í stað þess að vélrita þær á tölvu.