Alríkisstarfsmenn Bandaríkjanna eru uggandi. Þeir segjast þó beygðir en ekki brotnir eftir það sem þeir kalla aðför Donald Trump Bandaríkjaforseta að víginu. Á undirsíðu alríkisstarfsmanna á Reddit stappa þeir nú hver í annan stálinu og ætla að standa áfram vaktina sem seinasta vígi lýðræðisins.
Þeir lýsa þó yfir miklum ótta og reiði í garð aðgerða ríkisstjórnarinnar gegn þeim, sérstaklega tilboði sem barst frá mannauðssviði alríkisins í vikunni en þar er þeim boðið að segja starfi sínu lausu og fá í staðinn greiddan 8 mánaða uppsagnarfrest. Þeir telja þetta tilboð of gott til að vera satt, sérstaklega í ljósi þess að Donald Trump hefur ekki fengið samþykki þingsins fyrir þessum greiðslum.
Starfsmaður mannauðssviðs (OPM) skrifaði nafnlausa færslu þar sem hann sagði að fjandsamleg yfirtaka hafi átt sér stað hjá alríkinu.
„Ég er að skrifa hér því fólk þarf að vita hvað er í gangi hjá OPM.
Ég hef starfað þar í næstum áratug og verið ríkisstarfsmaður í tæplega 20 ár. Ég hef aldrei orðið vitni að nokkru í líkingu við það sem er að eiga sér stað núna. Í stuttu máli er að eiga sér stað fjandsamleg yfirtaka á opinberri þjónustu.
Leyfið mér að tala tæpitungulaust – OPM er í hættu og hefur verið yfirtekið. Hryggstykki bandaríska ríkisins, mannauðssvið allra mannauðssviða í ríkisrekstrinum, er nú í höndum utanaðkomandi pólitíkusa. Á aðeins fimm dögum tókst þeim að ýta til hliðar tugum ópólitískra ríkisstarfsmanna sem störfuðu sérstaklega að því að koma í veg fyrir að þjónusta ríkisins yrði háð duttlungum forsetans.“
Starfsmaðurinn segir að nýja ríkisstjórnin sé að safna upplýsingum um alríkisstarfsmenn og gangi hart eftir því að komast yfir netföng starfsmanna. Þegar yfirmaður hjá OPM neitaði þeim um aðgengi mættu þau sjálf í bygginguna með sinn eigin netþjón. Þannig gátu aðilar sem eru taldir vera á vegum Elon Musk sent tölvupósta í nafni OPM sem þykjast vægast sagt undarlegir og óvíst er hvaða tilgangi þjóna.
„Ópólitísku ríkisstarfsmennirnir hér hjá OPM sitja vanmáttugir hjá á meðan ríkið okkar er brotið kerfisbundið niður.“
Annar starfsmaður segir ljóst að alríkisstarfsmenn eigi nú í stríði við ríkisstjórn Trump. Það eigi að svipta sem flesta vinnunni sem sé viss aðför að uppgjafahermönnum sem stefndu lífi sínu í hættu fyrir þjóð sína, en um 30% alríkisstarfsmanna hafa þjónað í hernum.
„Til samstarfsmanna minna hjá ríkinu, þá sérstaklega uppgjafahermanna: Við eigum í stríði
Við horfum á þennan fauta reyna að kollvarpa ríkinu okkar í beinni útsendingu fyrir fjórum árum. Nú erum við að verða vitni að honum kollvarpa því innan frá. Við erum seinasta vígið gegn fasismanum. Ef við förum þá verður okkur skipt út fyrir áhangendur.“
Hann tók fram að hann hafi ekki fórnað heilu árunum af lífi sínu í hernum bara til að horfa upp á fasisma ná völdum. Sama fasisma og margir afar Bandaríkjamanna börðust við í síðari heimsstyrjöldinni.
„Ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, en ég neita að beygja kné fyrir þessari fasísku, alræðis elítustétt. Enginn er að koma til að bjarga okkur en við erum sterk saman í krafti fjöldans. Nú er tími til að gyrða sig í brók og halda áfram baráttunni fyrir frelsinu og lýðræðinu.“
Áðurnefndu tilboði Trump hefur verið mætt með tortryggni. Margir benda á að tilboðið komi að öllum líkindum úr herbúðum auðkýfingsins Elon Musk sem fer fyrir hagræðingaraðgerðum um þessar mundir. Hann hafi komið með svipuð tilboð til sinna eigin starfsmanna á sínum tíma og þá verið lítið um efndir.
Eins er bent á að ríkið sé bara fjármagnað fram í miðjan mars, en þá þurfi annaðhvort að hækka skuldaþak ríkissjóðs eða þá að fara í rekstrarstöðvun. Því séu miklar líkur á að starfsmenn verði sviknir um þennan ríka uppsagnarrétt, þá ýmist við vísan til að hann hafi verið veittur með ólögmætum hætti eða fallinn niður út af forsendubresti eða öðru.
Margir starfsmenn lýsa því svo að ríkisstjórnin geti dregið þá öskrandi og sparkandi frá starfsstöðum sínum en þeir muni ekki hætta sjálfir. Á Reddit-síðunni má sjá baráttuandann sem hefur gripið um sig. Þar má sjá slagorð á borð við: „Nei-hey, við förum ei“ og „Stöndum kjurt, förum ekki burt“
Starfsmennirnir benda á að þeir gegni mikilvægu hlutverki í samfélaginu, það séu ríkisstarfsmenn, stofnanir og eftirlitsaðilar sem veiti valdhöfum aðhald og tryggi að hlutirnir gangi sinn vanagang þó nýir valdhafar séu teknir við.
„Þeim hefur ekki tekist að þagga niður í okkur heldur erum við að gæta þess að ganga ekki í gildruna hans.“
Robert Bernard Reich, fyrrum vinnumarkaðsráðherra Bandaríkjanna, varar við tilboðinu og hvetur ríkisstarfsmenn til að virða það að vettugi.
„Ekki samþykkja tilboðið frá Elon. Elon Musk sendi í gær – í gegnum fólk sem hann hefur komið fyrir á mannauðssviðinu – tölvupóst til allra ykkar 2,3 milljón ríkisstarfsmanna þar sem hann bauðst til að borga ykkur 8 mánuði, fram til loka september, ef þið segið starfi ykkar lausu fyrir 6. febrúar, annars eigið þið á hættu að vera send í launalaust leyfi eða vera rekin.
Þið vitið hvað þetta snýst um. Þetta er ekki til að straumlínulaga rekstur ríkisins heldur að skipta ykkur, sem vinnið fyrir bandarískan almenning, út fyrir áhangendur Trump.“
Reich rekur að starfsmannastjóri Hvíta hússins hafi sagt það berum orðum í viðtali í vikunni að alríkisstarfsmenn séu of vinstrisinnaðir og Trump þurfi að koma fleiri hægrimönnum fyrir til að ríkisbatteríið sé ekki að flækjast fyrir stefnumálum hans.
Reich rekur að hvorki Musk né Trump hafi í raun heimild til að leggja þetta tilboð fram. Það séu stofnanir og svið ríkisins sem hafi forræði á eigin fjárheimildum og þær megi ekki færa á milli nema með samþykki þingsins. Eins eigi báðir mennirnir sögu um að snuða bæði starfsmenn sína og verktaka. Tilboðum þeirra beri að taka með þeim fyrirvara.
„Til að draga þetta saman – þetta er falstilboð. Segið nei. Og á meðan ég man, takk fyrir þjónustu ykkar.“
Þótt baráttuandinn sé augljós í færslum starfsmannanna má líka sjá þar ofsóknaræði, tortryggni og taugaveiklun. Þar eru gefin ráð á borð við að treysta ekki símum, snjallháturum eða nokkru tæki sem er með míkrófón. Fólk eigi ekki að nálgast Reddit eða aðra miðla í gegnum vinnutækin og varað er við að líklega séu vinnunethólf þeirra og tölvur vöktuð.
Fólki er ráðlagt að forðast að ræða stjórnmál í vinnunni og gæta að því að gefa hvergi upp persónugreinanlegar upplýsingar á Reddit. Eins er fólk varað við öðrum notendum á Reddit sem gætu verið á vegum ríkisstjórnarinnar og ætla sér að friðþægja fólk eða skapa óreiðu og sundrung.
Kannski á þessi ótti við rök að styðjast. Nokkrir hafa greint frá því að yfirmenn þeirra hafi á fundum beðið fólk um að hætta að „leka upplýsingum“ á Reddit. Eins var bent á það í hópnum að tiltekin skjöl sem ríkisstjórnin hafði birt, einkum minnisblöð í pdf-formi, báru þess merki hver hafði ritað þau í svokölluðu metadata. Fljótlega eftir að sú færsla birtist á Reddit hafði skjölunum verið breytt.
Hvað því líður þá eru alríkisstarfsmenn uggandi en standa þó keikir. Þeir eru duglegir að láta vita af því sem er að eiga sér stað innan ríkisrekstursins. Til dæmis virðist stjórn Trump nú vera að hreinsa út mikið af opinberum upplýsingum sem varða loftlagsbreytingar og nú í dag lét stjórnin mála yfir vegg hjá alríkislögreglunni (FBI) þar sem grunngildi stofnunarinnar voru rituð.
Einn skrifar: „Ekki hætta að deila upplýsingum um hvað er að gerast. Fólkið á skilið að vita það.“
Starfsmenn fengu í gær sendan annan póst um tilboðið góða. Þar var tekið fram að á 8 mánaða uppsagnarfrestinum séu þeir ekki með vinnuskyldu og að auki fullfrjálst að taka að sér önnur launuð störf samhliða. Þau eru meira að segja hvött til þess að fá sér starf í einkageiranum enda mun verðmætari störf fyrir þjóðarbúið.
„Þið megið hanga heima, slaka á eða ferðast á draumaáfangastaðinn ykkar. Allt sem þið viljið.“
Þessi viðbót við tilboðið virðist bara hafa aukið tortryggnina. Þetta sé of gott til að vera satt.