Háhyrningskýrin Tahlequah fangaði athygli heimsbyggðarinnar árið 2018 þegar hún synti um hafið með dauðan kálf sinn undan vesturströnd Kanada. Kálfur hennar lifði aðeins í hálftíma eftir að hann kom í heiminn og Tahlequah gat ekki sagt skilið við hann og synti með hræ hans vikunum saman.
Vísindamenn óttuðust um andlega og líkamlega heilsu hennar en Tahlequah tilheyrir stofni háhyrninga sem er í mikilli útrýmingarhættu. Talið er að hún hafi synt rúmlega 1600 kílómetra á 17 dögum með kálf sinn árið 2018, eins konar sorgarför. Nú á dögunum veittu vísindamenn því eftirtekt að aftur hefur Tahlequah misst kálf.
Vísindamenn segja þetta sorgleg tíðindi fyrir stofninn en líka fyrir Tahlequah. Þetta er hennar fjórði kálfur. Sá fyrsti fæddist fyrir 14 árum og lifir enn. Næsti fæddist árið 2018 og lifði aðeins í hálftíma. Þriðji fæddist árið 2020 og lifir en sá fjórði er nú dauður.
„Það er miklu erfiðara að horfa upp á þetta núna eftir að hún missti annan,“ sagði Brad Hanson, vísindamaður við National Oceanic and Atmospheric Administration. Að þessu sinni er talið að kálfurinn hafi lifað í nokkra daga áður en hann dó en vísindamenn telja að Tahlequah hafi synt með hræið dögum saman. Það krefst mikillar orku frá háhyrningskýrinni að synda með hræið og á sama tíma getur hún ekki orðið sér úti um fæðu. Fjölskylda hennar styður þó við bakið á henni í sorginni, einkum systir hennar sem hefur synt við hlið hennar.
Vísindamenn taka fram að háhyrningar framleiði sömu hormón og mannfólk. Það séu því líkur á því að háhyrningar upplifi tilfinningar, þar með talið sorg.
„Við erum ekki með einkarétt á tilfinningum svo ég tel það alveg rétt að segja að hún sé að syrgja,“ segir Joe Gaydos, vísindamaður við SeaDoc Society.