Skotárás átti sér stað í skóla í Nashville, Bandaríkjunum, í gær. Gerandinn var 17 ára drengur sem var nemandi við skólann. Skotmaðurinn, Solomon Henderson, banaði samnemanda sínum og særði annan áður en hann beindi vopninu að sjálfum sér og svipti sig lífi.
Hin látna var 16 ára stúlka, Josselin Corea Escalenti. Henderson vék sér að henni í mötuneyti skólans og skaut hana eftir orðaskipti. Annar nemandi, 17 ára drengur, særðist lítillega í árásinni en hefur nú verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Einn nemandi til viðbótar þurfti að leita læknisaðstoðar eftir að hafa fallið til jarðar í öngþveitinu sem myndaðist þegar skothríðin hófst.
Að sögn lögreglu liggur enn ekki fyrir hvers vegna Henderson mætti vopnaður í skólann en miðað við gögn sem hafa fundist um netnotkun var drengurinn öfgahægrimaður og var virkur á vefsvæðum nýnasista. Hafði Henderson meðal annars lýst yfir aðdáun sinni á öfgahægrinu og fjöldamorðingjum sem skilgreina sig sem incel, eða kynsvelta karlmenn.
Henderson hélt því fram að annar skotmaður, hin unga Samantha Rupnow sem framdi skotárás í skólanum sínum í Wisconsins í desember, hefði fylgt honum á samfélagsmiðlum. Rupnow var sömuleiðis aðdáandi nýnasista.
Rupnow, sem var 15 ára, banaði tveimur samnemendum sínum, særði sex aðra nemendur og beindi svo vopninu að sjálfri sér.