Donald Trump Bandaríkjaforseti hótar því að beita Rússland viðurlögum ef Vladimir Pútín forseti Rússlands nær ekki að semja um frið við Úkraínu.
Forsetinn skrifaði á samfélagsmiðil sinn, TruthSocial í dag:
„Náið sáttum og HÆTTIÐ þessu fáránlega stríði! ÞETTA VERÐUR BARA VERRA. Ef við náum ekki „samkomulagi“ og það fljótlega þá hef ég um ekkert annað að velja í stöðunni en að leggja á háa skatta, verndartolla og viðskiptaþvinganir á allt sem Rússland selur til Bandaríkjanna.“
Trump sagði að samningum yrði náð með góðu eða illu. Það væri þó í allra hag að gera þetta með góðu.
Forsetinn tók fram að það sé honum þvert um geð að valda Rússlandi skaða enda elski hann Rússa og hafi ávallt átt í góðum samskiptum við Pútín. Hann sé þó að gera Rússlandi greiða með því að skapa þennan þrýsting, enda efnahagur Rússlands að hruni kominn.
„Ljúkum þessu stríði, sem hefði aldrei brotist út ef ég hefði verið forseti, nú þegar. Við getum farið auðveldu leiðina, eða erfiðu leiðina – og auðvelda leiðin er alltaf farsælust“