fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Pressan

Á yfirborðinu var hún guðhrædd amma en í henni bjó myrkur

Pressan
Mánudaginn 20. janúar 2025 22:00

Velma Barfield. Mynd/Skjáskot-Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Velma Barfield frá Norður-Karólínu í Bandaríkjunum fæddist 1932. Hún var álitin einstaklega ógæfusöm kona þar sem það þótti gerast ansi oft að fólk sem var henni nákomið eða hún hafði einhver tengsl við hefði látist skyndilega. Með tímanum kom hins vegar upp úr krafsinu að það var alls ekki ógæfan ein sem gerði það að verkum að dauðinn virtist fylgja Barfield eins og skugginn. Hin guðhrædda amma sem fór reglulega í kirkju var ekki alveg eins ljúf og hún virtist vera.

Fólk átti bágt með að trúa því að guð væri svona vondur við guðhrædda og kirkjurækna konu með því að taka svo margt fólk frá henni. Sonur hennar, Ronnie Burke, sagði eitt sinn í blaðaviðtali:

„Það er svo sorglegt en það virðist sem að allir sem móðir mín verður náin deyi.“

Faðir Ronnie var Thomas Burke, fyrsti eiginmaður Velmu, en þau giftu sig árið 1949 þegar hún var aðeins 17 ára. Velma sem hafði upprunalega ættarnafnið Bullard var í raun ólm í að giftast svo ung til að geta losnað af æskuheimilinu þar sem hún mátti að sögn þola ofbeldi af hálfu föður síns reglulega, þar á meðal kynferðislegt. Móðir hennar, Lillian Bullard, mun ekkert hafa gert til stöðva ofbeldið.

Thomas og Velma eignuðust tvö börn. Fjölskyldulífið var í blóma fyrsta áratuginn en þegar komið var fram á sjöunda áratug síðustu aldar fór að síga á ógæfuhliðina.

Fíknin

Velma neyddist til að undirgangast legnám og vegna krónískra bakverkja þurfti hún að taka inn lyfseðilsskyld verkjalyf sem hún varð á endanum háð. Thomas fór að drekka áfengi í mun meiri mæli en áður og samskiptin á milli hjónanna fóru síversnandi.

Dag nokkurn árið 1969 fór Velma svo lítið bar á út með börnin og Thomas var einn heima. Eldur kom upp í húsinu og Thomas lét lífið. Velma virtist ekki vera annað en harmi slegin yfir þessum skyndilega dauða eiginmannsins og föður barnanna hennar. Þetta var hins vegar aðeins fyrsta dauðsfallið af mörgum sem tengdist manneskju sem náin tengsl hafði við Velmu.

Nokkrum mánuðum síðar kynntist Velma öðrum manni, Jennings Barfield. Hann átti líka börn og hafði misst maka sinn. Þau giftu sig fljótlega og eftirleiðis bar Velma eftirnafnið Barfield. Adam var hins vegar alls ekki lengi í paradís. Jennings tók eftir óhóflegri notkun eiginkonunnar á verkjalyfjunum og rifust hjónin mjög um þetta. Ástandið varð svo slæmt að hann fór fram á skilnað. Áður en það var frágengið fékk Jennings skyndilega dularfulla magapest og á endanum lést hann úr hjartabilun. Þetta var árið 1971.

Svikin og foreldrarnir

Eftir dauða eiginmanns númer tvö flutti Velma aftur heim til foreldra sinna. Fíknin hélt áfram að kalla og brá hún á það ráð að falsa ávísanir, með nafni móður sinnar, til að fjármagna fíknina.

Faðir hennar dó úr lungnakrabbameini árið 1972 en ljóst er að Velma átti engan þátt í því. Móðir hennar dó 1974 eftir sams konar veikindi og Jennings. Hjá þeim báðum lýstu einkennin sér meðal annars í magaverkjum og uppköstum. Engan grunaði að tengsl væru milli dauða móður Velmu og Jennings.

Eftir dauða móður hennar fór Velma að vinna við umönnun tveggja eldri hjóna. Eiginmaðurinn, Montgomery Edwards, var 94 ára og eiginkonan, Dollie Edwards, 84 ára. Innan tveggja ára höfðu þau bæði dáið eftir veikindi.

Því næst fór Velma að annast önnur eldri hjón sem hétu Record Lee and John Henry Lee. Velma hófst fljótlega handa við að falsa ávísanir með nafni þess síðarnefnda til að fjármagna óseðjandi fíknina í verkjalyf. Þegar komið var fram á árið 1977 fékk John Henry hjartaáfall og dó.

Makamissir í þriðja sinn

Þegar þarna var komið sögu höfðu því sjö manns sem náin tengsl höfðu við Velmu dáið á átta árum. Engan grunaði þó að hún ætti nokkurn þátt í neinu af þessum dauðsföllum. Fólk taldi hana bara vera svona hræðilega ógæfusama.

Velma kynntist nýjum manni, Stuart Taylor. Hún var þá orðin 45 ára gömul. Ástin kviknaði á milli þeirra og þau trúlofuðu sig. Aftur á móti fór Velma enn á ný að falsa ávísanir til að greiða fyrir verkjalyfin, nú á nafni unnustans. Hún mátti ekki til þess hugsa að hann kæmist að því og fór að setja eitur í smáum skömmtum í drykki hjá honum. Á trúarsamkomu fékk Stuart mikla magaverki og á leiðinni heim kastaði hann ítrekað upp. Hann var fluttur á spítala þar sem honum var tjáð að veikindi hans stöfuðu líklega af drykkju. Nokkrum dögum seinna dó hann.

Þetta var í febrúar 1978. Stuart var 56 ára gamall og hafði virst við hestaheilsu. Dauði hans þótti það dularfullur að á endanum var ákveðið að kryfja hann. Þá kom sannleikurinn í ljós. Eitrað hafði verið fyrir Stuart með arseniki.

Spilaborgin hrynur

Þar sem þetta var áttunda dauðsfallið meðal þeirra sem tengdust Velmu ákvað lögreglan að rannsaka sex þeirra aftur. Óþarfi þótti að rannsaka andlát föður Velmu. Hann hafði bersýnilega dáið úr lungnakrabbameini sem hún hafði ekki nokkur tök á að valda.

Í öllum sex tilfellunum var hin opinbera dánarorsök sú sama, maga- og garnabólga. Einkennum maga- og garnabólgu svipar til einkenna arsenikeitrunar. Magaverkur, niðurgangur, ógleði og uppköst. Því var skiljanlegt að úrskurðað hafi verið í öllum tilfellum að fólkið hefði látist vegna maga- og garnabólgu.

Þá loksins rann upp fyrir löggæslumönnum að Velma Barfield væri ekki bara hrikalega óheppin að missa svona marga sem tengdust henni. Hún var fjöldamorðingi.

Velma harðneitaði í fyrstu að hafa eitrað fyrir Stuart Taylor en viðurkenndi það loks þegar áðurnefndur sonur hennar Ronnie bar það upp á hana. Hún grét og sagðist aðeins hafa ætlað að gera Stuart veikan en ekki drepa hann.

Játaði ekki allt

Velma játaði að lokum fimm morðanna; á Stuart, móður sinni, Dollie Edwards, Montgomery Edwards og John Henry Lee.

Hún neitaði að hafa myrt eiginmenn sína, Thomas Burke og Jennings Barfield. Lík Jennings var hins vegar grafið upp og í því fundust leifar af arseniki og Velma er sögð hafa játað fyrir syni sínum Ronnie að hafa myrt föður hans, Thomas.

Velma var aðeins dæmd fyrir morðið á Stuart, þrátt fyrir þá játningu að hún hafi myrt fjórar aðrar manneskjur. Dómur var kveðinn upp í lok árs 1978 og hlaut hún dauðadóm.

Mikið fjölmiðlafár varð vegna máls Velmu. Hún var kölluð Dauðadeildaramman (e. Death Row Granny).

Velma var á þessum tímapunkti augljóslega orðin amma og þótti nánast óhugsandi að kona sem leit út eins og hver önnur bandarísk amma gæti hafa myrt 7 manns.

Tekin af lífi

Velma iðkaði trú sín af meiri krafti en nokkru sinni fyrr í fangelsinu. Trúarhópur sem hún tilheyrði barðist fyrir því að lífi hennar yrði þyrmt. Reynt var að fá dauðarefsinguna fellda niður á þeim grunni að Velma glímdi við geðsjúkdóm, nánar til tekið margklofinn persónuleika en ekkert af þessu breytti því sem verða vildi.

Velma var tekin af lífi 2. nóvember 1984 með eitursprautu. Á meðan var aftökunni mótmælt fyrir utan fangelsið en annar hópur sem mætti á svæðið fagnaði. Hún var 52 ára gömul. Þetta var í fyrsta sinn síðan 1962 sem að kona var tekin af lífi í Bandaríkjunum.

Skömmu áður en dauðadómnum var fullnægt fór Velma ekkert í grafgötur með að hún hefði sætt sig við örlög sín. Hún bað fjölskyldur fórnarlamba sinna afsökunar á þeim þjáningum sem hún hefði valdið og sagði við fjölskyldu sína, vini og fjölmiðla að eitursprautan væri hennar leið inn í himnaríki.

Hvort fjöldamorðingjanum Velmu var hleypt inn í himnaríki skal hins vegar ósagt látið.

Allthatsinteresting.com

Wikipedia.org

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Læknir segir mikilvægt að venja sig af þessu ef blóðþrýstingurinn er of hár

Læknir segir mikilvægt að venja sig af þessu ef blóðþrýstingurinn er of hár
Pressan
Fyrir 2 dögum

Þetta eru bestu löndin til að verða gamall í

Þetta eru bestu löndin til að verða gamall í
Pressan
Fyrir 3 dögum

Elon Musk setti tölvuleikjasamfélagið á hliðina og er sakaður um svindl – „Almáttugur, þetta er næstum því of heimskulegt til að vera satt“

Elon Musk setti tölvuleikjasamfélagið á hliðina og er sakaður um svindl – „Almáttugur, þetta er næstum því of heimskulegt til að vera satt“
Pressan
Fyrir 3 dögum

YouTube-stjarnan Mr. Beast vill bjarga Bandaríkjamönnum frá TikTok-banni

YouTube-stjarnan Mr. Beast vill bjarga Bandaríkjamönnum frá TikTok-banni
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þýskur nýnasisti skiptir um kyn til að freista þess að fá að afplána í kvennafangelsi

Þýskur nýnasisti skiptir um kyn til að freista þess að fá að afplána í kvennafangelsi
Pressan
Fyrir 4 dögum

Vara við sjúkdómi sem hefur smitað níu og drepið átta á skömmum tíma

Vara við sjúkdómi sem hefur smitað níu og drepið átta á skömmum tíma