Atvikið átti sér stað síðdegis á gamlársdag og á myndbandinu sést þegar fórnarlambið bíður eftir lestinni og árásarmaðurinn kemur aftan að honum. Í þann mund sem lestin kemur hrindir árásarmaðurinn, hinn 23 ára gamli Kamel Hawkins, manninum í veg fyrir lestina.
Maðurinn sem varð fyrir lestinni hlaut alvarlega áverka, meðal annars höfuðkúpubrot, en er sagður í stöðugu ástandi á sjúkrahúsi.
Eyewitness News ræddi við sjónarvott að atvikinu, unga konu að nafni Andrea, sem var á brautarpallinum þegar atvikið átti sér stað.
Hún segist hafa tekið eftir manninum á lestarstöðinni áður en hann lét til skarar skríða og haft skrýtna tilfinningu fyrir honum. „Ég veit ekki hvort það var klæðnaðurinn. Hann var með grímu á sér og hettu yfir höfðinu. Ég ákvað að setjast á bekkinn þegar ég sá hann,“ segir hún og bætir við að það sé í raun ótrúlegt að fórnarlambið hafi lifað árásina af.
„Ég veit ekki hvernig hann lifði þetta af, aumingja maðurinn,“ segir hún en hún hringdi í neyðarlínuna þegar hún sá hvað gerðist.
Hinn grunaði árásarmaður á nokkurn sakaferil að baki, meðal annars fyrir líkamsárásir og vopnalagabrot. Hann var handtekinn um klukkustund eftir árásina en lögregla segir að hann hafi ekki þekkt fórnarlamb sitt og árásin hafi verið handahófskennd.
Að undanförnu hafa óhugnanlegar árásir á neðanjarðarlestarstöðvum New York-borgar komist í fréttirnar. Aðeins nokkrir dagar eru síðan kveikt var í 61 árs gamalli konu sem lést af sárum sínum.