Það þarf svo sem ekkert að velkjast í vafa um það lengur að Musk, sem er ríkasti maður heims, er orðinn klappstýra fyrir AfD nú í aðdraganda þingkosninga í Þýskalandi. Af þeim sökum bauð hann Weidel í beina útsendingu á fimmtudaginn.
Margir göptu stórt þegar fáránleg staðhæfing um Hitler var sett fram í samtali þeirra.
Í samtalinu, sem stóð yfir í 70 mínútur og fór fram og til baka hvað varðar efnistök og virkaði ansi stíft en stundum jaðraði við að þau döðruðu við hvort annað og grínuðust, sagði Weidel að Hitler hafi „verið kommúnisti að upplagi“.
„Hann var kommúnisti, sósíalisti. Punktur. AfD er hið gagnstæða. Þetta er íhaldssamur, frjálslyndur flokkur, Hitler var ekki á hægri vængnum . . . Hann var ekkert annað en sósíalisti sem hataði gyðinga,“ sagði Weidel. Musk mælti henni ekki í mót þegar hún lét þessi orð falla.
Hitler gerði það ávallt ljóst að hann væri alls ekki sósíalisti og leit á kommúnista sem einn stærsta óvin sinn.
AfD er öfgahægriflokkur, popúlistaflokkur, sem boðar harða stefnu í málefnum innflytjenda. Kosið verður til þings í Þýskalandi 23. febrúar og stefnir í að flokkurinn verði sá næststærsti.
Aðrir flokkar á þýska þinginu standa saman um að starfa ekki með AfD sem hefur oft verið líkt við Hitler og nasisma.