Með þessu vilja Svíar tryggja að her þeirra sé í fremstu röð og geti varið landið fyrir miklu stærri óvinum.
Pål Jonson, forsætisráðherra, skýrði frá þessu á fréttamannafundi á mánudaginn. Þar kom fram að þetta sé mjög mikilvægur áfangi.
Um nýja drónatækni er að ræða sem gerir einum hermanni kleift að stýra allt að 100 drónum í einu. Expressen skýrir frá þessu.
Tæknin verður tekin í notkun á stórri heræfingu í mars og síðan er ætlunin að innleiða hana hjá sænska hernum og ljúka þeirri innleiðingu á árinu.
Jonson sagði að verkefnið hafi verið í algjörum forgangi og því hafi verið lokið á aðeins einu ári en undir venjulegum kringumstæðum hefði það tekið fimm ár.
Saab er auðvitað þekktast fyrir samnefnda bíla en fyrirtækið er einnig stórt í framleiðslu flugvéla og vopnakerfa.
Fyrirtækið þróaði nýjan hugbúnað, sem gerir drónum af venjulegri stærð kleift að mynda stóra sveima og takast sjálfir á við verkefni. Það getur til dæmis verið að vakta veg og senda myndir til stjórnstöðvarinnar eða leita að munum frá óvininum.
Jonson sagði að drónarnir í hverjum sveimi geti skipt verkefnunum á milli sín. Þeir fljúgi síðan heim til að hlaða batteríin þegar þörf krefur en haldi síðan aftur af stað.
Það er hægt að bæta ýmsum möguleikum við hugbúnaðinn, til dæmis að láta drónana bera sprengju.