Dpa skýrir frá þessu og segir að þetta hafi komið fram fyrir dómi í Mannheim í Baden-Württemberg sem er í suðvesturhluta landsins.
Konurnar voru myrtar í mars á síðast ári.
„Ég sé eftir öllu því sem ég gerði,“ sagði í yfirlýsingu frá manninum en verjandi hans las hana upp.
„Ég gerði stór mistök,“ sagði konan eftir að játning þeirra lá fyrir.
Saksóknarar segja að parið eigi samtals fjögur börn, þar af einn son saman.
Konan átti sér heita ósk um að þau myndu eignast dóttur saman. Eftir fjölda fósturláta og misheppnaðra tæknifrjóvgana, ákváðu þau að þau myndu ræna nýfæddri stúlku og láta sem hún væri þeirra.
„Við vildum svo mikið eignast dóttur saman. Það var heitasta ósk konunnar minnar,“ sagði maðurinn fyrir dómi.
Þau ákváðu að beina sjónum sínum að flóttamönnum frá Úkraínu til að „verða sér úti“ um dóttur.
Þau gerðust því meðlimir í hópsamtali á Telegram þar sem Úkraínumenn geta leitað sér hjálpar varðandi túlkun og þýðingar.
Úkraínska konan bjó í bænum Wiesloch með dóttur sinni þegar hún komst í samband við parið. Hún og móðir hennar hittu parið síðan á veitingastað í byrjun mars. Þar byrlaði parið þeim ólyfjan svo þær liðu út af. Maðurinn banaði þeim síðan með beittum hlut.
Fyrir dómi kom fram að mæðgurnar hefðu verið myrtar á sitthvorum staðnum en ekki var skýrt nánar frá þeirri hlið málsins.
Þau sökktu líki ömmunnar í vatn eitt og brenndu lík ungu konunnar. Síðan óku þau heim með litlu stúlkuna.
Lík ungu konunnar fannst næsta dag við árbakka Rínar.
Viku eftir morðin handtók lögreglan parið og fann litlu stúlkuna.
Parið hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan og litla stúlkan er í umsjá móðursystur sinnar í Úkraínu.
Saksóknari krefst þess að parið verði dæmt í ævilangt fangelsi.
Reiknað er með að dómur verði kveðinn upp 21. febrúar.