Eins konar styrjöld er skollin á innanbúðar hjá stuðningsmönnum verðandi Bandaríkjaforseta, Donald Trump. Stuðningsmennirnir, sem kenna sig við slagorð Trump um að færa Bandaríkin aftur til vegs og virðingar, MAGA, eru nefnilega ekki allir ánægðir með að auðkýfingurinn Elon Musk sé genginn í þeirra raðir.
Styrjöldin hófst þegar Musk lýsti yfir stuðningi við vegabréfaáritanir til erlendra sérfræðinga. Musk fór mikinn í þeirri umræðu og tókst að sármóðga marga MAGA-liða með því að gefa til kynna að bandarískir tæknistarfsmenn væru ekki nægilega margir eða nægilega klárir til að mæta þörfum tæknigeirans.
Steve Bannon, fyrrum pólitískur ráðgjafi Donald Trump, er mikill áhrifamaður innan MAGA-hreyfingarinnar. Hann var dæmdur í fangelsi árið 2022 fyrir að vanvirða þingnefnd Bandaríkjanna er hann neitaði að bera vitni í tengslum við rannsókn á áhlaupi stuðningsmanna Trump á þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar árið 2021. Bannon var í raun talinn hafa hvatt til áhlaupsins með ýmsum hætti. Bannon er enginn aðdáandi Musk. Hann hefur harðlega gagnrýnt stuðning auðkýfingsins við vegabréfsáritanirnar, H-1B. Hann hefur opinberlega lýst Musk sem rotnum að innan og heitið því að draga úr áhrifum hans í næstu ríkisstjórn Trumps.
Bannon sagði við ítalska miðilinn Corriere della Sera á dögunum: „Ég mun láta svæla hann héðan út fyrir innsetningarathöfnina. Hann mun ekki hafa bláan passa sem veitir honum fullan aðgang að Hvíta húsinu.“
„Hann er rotinn að innan. Að stöðva hann er orðið að persónulegu markmiði mínu. Áður, þar sem hann hafði lagt til svo mikið fjármagn, var ég tilbúinn að umbera hann en ekki lengur.“
Bannon heldur því fram að H-1B vegabréfsáritanir séu að ræna störfum frá Bandaríkjamönnum. Þeir sem fái störf þurfi að sætta sig við lægri laun þar sem Bandaríkjamenn séu að keppa við erlenda starfsmenn sem eru tilbúnir að sætta sig við minna. Bannon vill í raun að Musk sé hreinlega vísað úr landi, enda sé auðkýfingurinn frá Suður-Afríku og þar eigi hann heima.
„Hvers vegna erum við með hvítan Suður-Afríkumann, sem er rasískasta fólk heims, að tjá sig um allt sem gerist í Bandaríkjunum. Hann mun gera hvað sem er til að tryggja að öll fyrirtækin hans njóti verndar, fríðinda eða þéni meiri peninga.“
Musk sé holdgervingur samþjöppunar auðs og beiti auðæfum sínum til að kaupa sér vald. Þetta muni bandarískur verkalýður ekki sætta sig við.