Karlmaður lét lífið eftir hnífstungu um borð í neðanjarðarlest í New York í desember. Sá sem ber ábyrgð á andlátinu verður þó ekki ákærður í málinu. Um er að ræða 69 ára gamlan karlmann sem var sofandi í lestinni snemma morguns þann 22. desember þegar fimm menn reyndu að ræna hann. Maðurinn vaknaði við vondan draum og kom til átaka. Fór svo að maðurinn tók upp hníf og lagði til ræningjanna með þeim afleiðingum að einn lést.
Myndband hefur gengið af átökunum sem sýna hvar 69 ára maðurinn er umkringdur hinum sem létu högg og spörk ganga yfir hann. Maðurinn tók þá upp hníf til að verja sig með fyrrnefndum afleiðingum.
Maðurinn þurfi að leita á sjúkrahús eftir átökin með fjölda áverka. Ákæruvaldið telur rétt að láta málið niður falla enda um sjálfsvörn að ræða.
„Brotaþoli varð fyrir tilefnislausri árás og rannsókn okkar hefur leitt í ljós að hann var að verja sig og reyna að endurheimta eigur sínar,“ sagði héraðssaksóknarinn í Queens, Melinda Katz í yfirlýsingu í vikunni. „Sökum þessa mun embætti mitt ekki ákæra hann fyrir andlátið.“
Yfirvöld hafa tekið fram að allir mennirnir sem um ræði í málinu, bæði ræningjarnir fimm og brotaþolinn, glími við heimilisleysi.
Ákæruvaldið hefur þó gefið út ákæru á hendur ræningjunum, en lögmaður eins þeirra segir að þar sé ákæruvaldinu beitt með offorsi.