Mjólkurglas á dag kemur skapinu í lag, en nú bendir margt til þess að það geti líka minnkað líkurnar á ristilkrabbameini.
Samkvæmt einni stærstu rannsókn sem hefur farið fram á mataræði og tengslum þess við sjúkdóma gæti eitt stórt mjólkurglas á dag minnkað líkurnar á ristilkrabbameini um næstum því fimmtung. Þetta má rekja til kalksins. Samkvæmt rannsókninni geta 300 mg af kalki á dag, sem er um það bil sama magn og má finna í einu stóru mjólkurglasi (280 ml), lækkað líkur á ristilkrabbameini um 17 prósent. Fyrir þá sem ekki drekka mjólk má fá kalkið úr öðrum áttum svo sem úr sojamjólk.
„Þessi umfangsmikla rannsókn bendir sterklega til þess að mjólkurvörur geti hjálpað til við að koma í veg fyrir ristilkrabbamein, einkum út af kalkinu sem þær innihalda,“ sagði Dr. Keren Papier, einn höfunda rannsóknarinnar, í samtali við The Guardian.
Ristilkrabbamein er þriðja algengasta krabbameinið í heiminum og greinast milljónir með það á ári hverju. Undanfarið hefur tilfellum fjölgað mikið, einkum meðal ungs fólks. Meinið er nátengt lífsstíl og mataræði. Rannsóknir benda til að hægt hefði verið að fyrirbyggja um helming greindra tilfella með lífsstílsbreytingum. Skiptir þá einkum máli að viðhalda heilbrigðri líkamsþyngd, borða trefjaríka fæðu, draga úr áfengisdrykkju, stunda hreyfingu og hætta að reykja. Mataræðið skiptir mestu en talið er að eitt af hverjum fimm tilfellum megi rekja til ofneyslu á rauðu kjöti og unninni kjötvöru.
Tilvitnuð rannsókn byggði á gögnum um mataræði rúmlega 540 þúsund kvenna á tæplega 17 ára tímabili. Til skoðunar voru 97 matvæli, drykkir og næringarefni.
Rannsóknin sýndi að kalk getur verndað fólk frá ristilkrabba og eins að áfengi, rautt kjöt og unnin kjötvara eykur áhættuna. Eitt stórt rauðvínsglas á dag virtist auka áhættuna um 15% á meðan hver 30 grömm af rauðu kjöti og unninni kjötvöru eykur líkurnar um 8%.
Nánar má lesa um rannsóknina hjá Guardian.