Með einföldum hætti er hægt að gera venjulegt kranavatn að frískandi og hollri upplifun. Þetta er hægt að gera með því að bæta ávöxtum, grænmeti eða kryddjurtum út í það.
Næringarfræðingurinn Camilla Grønnegaard Christoffersen veitti lesendum Femina góð ráð um þetta og kom með fimm uppskriftir að vatni með góðu bragði.
Sá fríski – Þetta er klassísk blanda þar sem lime og appelsína eru skornar í þunnar sneiðar og þær settar í vatnið. Síðan er einni stöng af myntu bætt við. Þetta er látið standa í ísskápnum í 1-2 klukkustundir áður en það er drukkið.
Það bitra – Skerðu fjórðung af grapealdini í sneiðar og smávegis af lime. Settu sneiðarnar í flösku með köldu vatni. Bragðið er bæði frískandi og súrt.
Það sæta – Þessi blanda er sannkölluð veisla fyrir bragðskynið og augun. Hreinsaðu jarðarber og skerðu þau niður og settu í vatn ásamt þunnum appelsínusneiðum og lime og síðan myntustöng. Þetta er fullkominn drykkur á heitum sumardögum!
Það klassíska – Gúrkur eru þekktar fyrir að kæla á náttúrulegan hátt. Taktu einn þriðja af gúrku og skerðu í þunnar lengjur og settu þær út í vatn. Þá ertu komin(n) með einfaldan en ótrúlega frískandi drykk.
Hið framandi – Skerðu sítrónugras til og gerðu skurð langsum og þrýstu niður á borð til að losa um ilminn. Heltu síðan köldu vatni yfir og láttu þetta bíða í ísskáp í nokkrar klukkustundir áður en þú drekkur það.