Þetta segja vísindamenn við University of Michigan en þeir hafa rannsakað hvaða áhrif neysla ofurunninna matvæla hefur á líf okkar.
Ofurunnin matvæli, sem innihalda efni á borð við gervibragð og liti, rotvarnarefni og ýruefni, geta verið mjög hættuleg ef neyslu þeirra er ekki stillt í hóf.
Sum af þessum matvælum gætu kostað þig margar mínútur af lífi þínu. Pylsa gæti stytt það um 36 mínútur og ef þú færð þér gosdrykk með, þá gætu 12 mínútur bæst við þessa styttingu.
Morgunverðarsamlokur og egg stytta lífið um 13 mínútur ef miða má við niðurstöðu rannsóknar vísindamannanna og ostborgari styttir það um 9 mínútur.
En niðurstöður rannsóknarinnar eru ekki bara neikvæðar, því hún leiddi í ljós að neysla ákveðinna fisktegunda geti lengt lífið um 28 mínútur.
Olivier Jolliet, aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði að það sé alveg ljóst hversu miklu máli það skipti fyrir fólk að breyta mataræði sínu. Niðurstöðurnar sýni að smávægilegar breytingar hafi töluverðan heilsufarslegan ávinning í för með sér og ekki sé þörf á mjög miklum breytingum.
Meðal þeirra matvæla sem stytta lífið eru:
Pylsa – 36 mínútur
Morgunverðarsamloka – 13 mínútur
Egg – 13 mínútur
Gosdrykkur – 12 mínútur
Ostborgari – 9 mínútur
Beikon – 6 mínútur
Eins og áður sagði, þá getur neysla á ákveðnum fisktegundum lengt lífið og önnur rannsókn leiddi í ljós að neysla á osti á borð við cheddar og brie getur aukið lífslíkurnar og komið í veg fyrir krabbamein í lifur.