fbpx
Mánudagur 28.apríl 2025
Pressan

Tók til sinna eigin ráða eftir að dóttir hennar var myrt og það átti eftir að kosta hana lífið – Ævintýraleg barátta syrgjandi móður sem bauð glæpagengi birginn

Pressan
Sunnudaginn 27. apríl 2025 22:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2012 var hinni tvítugu Karen Alejandra Salinas Rodríguez rænt af glæpasamtökum í sjálfstjórnarhéraðinu San Fernando í Mexíkó. Þetta var ekki óalgengt en það sem var óvenjulegt var hvernig móðir hennar, Miriam, brást við. Miriam átti eftir að verja næstu fimm árunum í þrotlausa baráttu fyrir réttlæti þar sem hún sneri vörn í sókn og hafði uppi á mönnunum sem sviptu dóttur hennar lífi.

Þurfti að horfast í augu við sannleikann

Ræningjarnir kröfðust lausnargjalds, sem Miriam borgaði. Í raun fór Miriam eftir öllum fyrirmælum ræningjanna en það virtist engu máli skipta. Karen kom aldrei heim aftur. Þess í stað héldu ræningjarnir áfram að krefja örvæntingafullu móðurina um peninga. Miriam reyndi allt. Hún tók lán til að borga lausnargjaldið og strunsaði jafnvel til fundar við glæpagengið þar sem hún grátbað um dóttur sína. Ekkert virkaði. Loks þurfti Miriam að horfast í augu við raunveruleikann. Fyrst Karen væri ekki komin heim, kæmi hún varla úr þessu. Dóttir hennar var dáin.

Miriam leitaði til lögreglu sem hafði lítinn áhuga á málinu. Hún ákvað því að taka málið í sínar eigin hendur. Hún gerðist sjálf rannsóknarlögreglumaður. Hún lærði á samfélagsmiðla til að gefa upp nöfn mögulegra gerenda, hún varð sér úti um fölsuð skilríki, klæddi sig í dulargervi, vingaðist við fjölskyldur glæpamannanna og áfram mætti lengi telja. Allt þetta gerði hún til að verða sér úti um upplýsingar svo lögreglan gæti handtekið þá seku.

Hún ætlaði að fá svör um örlög dóttur sinnar, sama hvað það kostaði, og það átti eftir að kosta hana mikið. ´

Fljótlega varð Miriam ljóst að ræningjarnir voru á vegum glæpasamtakanna Los Zetas. Þetta voru alræmd glæpasamtök og stórhættuleg.

En hún var ekki hrædd. Hún sat fyrir glæpamönnunum, lærði allt sem hún gat um þá og fór svo með allar upplýsingarnar til lögreglunnar. Sumir þeirra höfðu reynt að snúa við blaðinu, en það þýddi ekkert. Miriam elti þá uppi og þeir skyldu fá að svara fyrir glæpi sína. Hún sat fyrir einum í húsasundi og til að koma í veg fyrir að hann færi á flótta beindi hún byssu sinni að höfði hans og tilkynnti honum grjóthart að ef hann myndi hreyfa sig þá fengi hann kúlu í ennið. Þannig stóð hún í klukkustund þar til lögreglan mætti á svæðið.

Einn glæpamannanna staðfesti loks að Karen væri látin og vísaði henni á líkamsleifarnar. Það dugði Miriam ekki til. Hún vissi að fleiri menn bæru ábyrgð og hún ætlaði ekki að hætta fyrr en þeir væru allir komnir á bak við lás og slá.

Vissi að hún væri í hættu

Barátta hennar vakti gífurlega athygli. Miriam varð tákn vonar í samfélagi þar sem margir áttu um sárt að binda vegna glæpagengja. Hún var hetja fjölskyldna sem höfðu misst ástvini með sama hætti. Glæpagengin voru skiljanlega minna hrifin af þessari hversdagshetju og Miriam vissi að þolinmæði þeirra væri á þrotum.

„Mér er sama þó þeir drepi mig, ég dó daginn sem þeir myrtu dóttur mína. Ég vil ljúka þessu. Ég ætla að taka þá sem meiddu dóttur mína úr leik og þeim er frjálst að gera hvað sem þeir vilja við mig að því loknu.“

Hún reyndi þó að leita eftir aðstoð lögreglu, hún taldi líf sitt í hættu og hún þyrfti öryggisvöktun. Lögreglu fannst það þó ekki ákallandi þó að Miriam framvísaði fjölda hótunarbréfa sem henni höfðu borist.

Það fór því svo að 10. maí árið 2017, daginn sem mæðrum er fagnað í Mexíkó, brutust glæpamenn inn til Miriam og skutu hana 13 sinnum. Miriam reyndi að koma sér undan. Þegar eiginmaður hennar kom að henni, liggjandi í blóði sínu fyrir utan heimili þeirra, var Miriam með aðra höndina ofan í veski sínu. Hún var að teygja sig eftir byssu sinni því hún ætlaði að deyja eins og hún lifði – berjast til seinasta andardrátts.

Mánuði eftir að Miriam lét lífið handtók lögregla enn eina manneskjuna sem kom við sögu í morði Karenar. Handtakan byggði á upplýsingum frá Miriam sem hafði haft uppi á viðkomandi eins og svo mörgum öðrum.

Miriam hvílir nú við hlið dóttur sinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Baðst afsökunar áður en hann var tekinn af lífi

Baðst afsökunar áður en hann var tekinn af lífi
Pressan
Fyrir 3 dögum

Elon Musk sagður tryggja eigin hagsmuni um leið og hann sker niður hjá öðrum

Elon Musk sagður tryggja eigin hagsmuni um leið og hann sker niður hjá öðrum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Varnarmálaráðherra fær blauta tusku í andlitið frá fyrrum samstarfsfélaga á Fox-fréttastofunni

Varnarmálaráðherra fær blauta tusku í andlitið frá fyrrum samstarfsfélaga á Fox-fréttastofunni
Pressan
Fyrir 5 dögum

Dómsdagsmamman sakfelld fyrir annað morð

Dómsdagsmamman sakfelld fyrir annað morð