Luís Fernando, sjö ára, veiktist eftir að hafa borðað súkkulaðiegg og var fluttur á sjúkrahús í skyndi á skírdag. Hann lést nokkrum klukkustundum eftir komuna þangað.
The Independent segir að lögreglan sé að rannsaka hvort „afbrýðisöm kona“ hafi sent eggin heim til hans. Hún er í haldi lögreglunnar.
Fljótlega eftir að Luís kom á sjúkrahúsið, byrjaði móðir hans, Mirian Lira, að sýna einkenni eitrunar þegar hendur hennar urðu fjólubláar og hún átti erfitt með andardrátt. Hún og 13 ára dóttir hennar liggja þungt haldnar á sjúkrahúsi að sögn lögreglunnar.
Eggin voru send heim til fjölskyldunnar með skilaboðunum: „Ástarkveðjur til Mirian Lira. Gleðilega páska“.
Naiza Lira, systir Mirian, sagði að ekkert hafi komið fram um frá hverjum eggin voru.
Síðan hafi kona hringt í Mirian og spurt hvort hún hefði fengið eggin. Þegar hún spurði konuna hver hún væri, svaraði hún: „Þú kemst að því,“ og lagði á.
Konan, sem er í haldi, er 35 ára og er fyrrum unnusta nýs unnusta Mirian.
Hún er sögð hafa notað hárkollur þegar hún keypti eggin í stórmarkaði.