Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Pete Hegseth, er aftur kominn í klípu fyrir að hafa farið nokkuð frjálslega með trúnaðarupplýsingar. Ekki er langt síðan að ritstjóra miðilsins The Atlantic var fyrir mistök bætt í háleynilegt spjall embættismanna á Signal þar sem fram komu leynilegar upplýsingar um fyrirhugaða árás bandaríska hersins á Húta í Jemen. Hegseth var hluti af því spjalli, þó að hann hafi ekki verið sá sem óvart hleypti blaðamanni þangað inn. Hegseth var þó harðlega gagnrýndur fyrir að taka þátt í spjalli sem þessu á samskiptamiðlinum Signal, enda ætti ráðherra varnarmála að vita að samskipti sem þessi ættu að fara fram í gegnum öruggar, traustar og lokaðar spjallrásir hins opinbera.
Nú er komið á daginn að Hegseth notaði Signal í fleiri tilvikum og hafði hann jafnvel sent viðkvæmar hernaðarupplýsingar á eiginkonu sína, þó að hún hafi engar öryggisheimildir haft til að taka við þess konar upplýsingum.
Demókratar hafa nú kallað eftir því að Hegseth segi af sér.
Hegseth er bálreiður yfir gagnrýninni en hann sagði í samtali við Fox News í dag: „Þegar þú rekur fólk sem þú telur hafa leikið trúnaðarupplýsingum, hvers vegna ætti það að koma nokkrum á óvart að þessi sami aðili myndi halda áfram að leka í þessa sömu blaðamenn hvaða upplýsingum sem hann kann að búa yfir sem gætu mögulega skaðað stefnu forsetans eða ráðherra?“
Þarna vísar Hegseth til fyrrum embættismannanna Dan Caldwell, Colon Carroll og Darin Selnick sem ráðherrann hefur rekið. Þremenningarnir birtu sameiginlega yfirlýsingu um helgina þar sem þeir sögðust vera þolendur pólitískrar aðfarar þar sem mannorðið hafi verið haft af þeim að ósekju. Hegseth telur að þremenningarnir hafi verið að leka upplýsingum í fjölmiðla því þeir voru óánægðir með þær breytingar sem Hegseth er að gera í varnarmálum. Ráðherrann segist gefa lítið fyrir gagnrýnina. „Ég mun hvergi hvika því þessi vinna er of stór og of mikilvæg.“
Trump hefur eins lýst yfir stuðningi við Hegseth og segir hann standa sig vel. Það eru þó ekki allir sammála ráðherranum og forsetanum. Fyrrum starfsmaður Hegseth, John Ullyot, sem áður var einn helsti talsmaður ráðherrans, skrifaði grein á dögunum þar sem hann sakar fyrrverandi yfirmann um óheilindi og vanhæfni. Hann sé búinn að koma varnarmálaráðuneytinu, gjarnan kennt við Pentagon, í algjört uppnám. Vantraust milli yfir- og undirmanna sé gífurlegt, skilvirkni hefur minnkað og í húsnæðinu megi daglega heyra öskur á átakafundum. Trump og hans skósveinar halda því fram að það sé einhvers konar djúpríki innan Pentagon sem þoli það ekki að vera að missa völdin. Þess vegna sé nú ráðist á Hegseth, þar sem hann liggur vel við höggi enda starfaði hann áður sem fjölmiðlamaður og margir efuðust um að hann væri hæfur til að gegna ráðherraembætti. Upplýsingafulltrúi forsetaembættisins, Karoline Leavitt, orðaði þetta svo: „Þetta er það sem gerist þegar Pentagon, eins og það leggur sig, er að vinna gegn þér og vinna gegn þeim umfangsmiklu breytingum sem þú ert að reyna að innleiða.“
NPR birti svo frétt í gær þar sem sagði að Trump ætlaði að losa sig við Hegseth og væri nú að leita að eftirmanni. Þar var vitnað í ónefnda heimildarmenn innan ríkisstjórnarinnar. Trump hefur þó vísað þessu á bug og segir fréttaflutning um Signal-spjöll Hegseth vera tímasóun enda ekkert athugavert við þau. „Hann stendur sig frábærlega – spyrjið bara Húta hvernig hann stendur sig.“
Það var New York Times sem fjallaði fyrst um seinni Signal-skandalinn en þar kom fram að Hegseth hefði deilt viðkvæmum upplýsingum um fyrirhugaða árás á húta í hópspjalli á Signal, en meðal meðlima hópsins voru eiginkona hans, bróðir hans og lögmaður hans.