Sem betur fer eru margir tilbúnir til að rétta fram hjálparhönd og gerast sæðisgjafar til að hjálpa pörum sem geta ekki eignast börn sjálf.
Þessu fylgir auðvitað að erfðaefni sæðisgjafanna fer út um víðan völl og í sumum tilfellum mun víðar en heimilt er.
Hollensk yfirvöld segja að minnst 85 sæðisgjafar hafi „eignast“ minnst 25 börn hver þrátt fyrir að hver og einn megi bara „aðstoða“ 12 konur.
Rannsókn yfirvalda leiddi í ljós að sæðisbankar og tæknifrjóvgunarstofur hafa árum saman brotið lögin.
Segja yfirvöld að sæðisbankarnir og tæknifrjóvgunarstofurnar hafi ekki fyllt út viðeigandi skjöl eða fengið samþykki hjá sæðisgjöfunum og einnig hafi þeim verið leyft að gefa sæði hjá fleiri en einum sæðisbanka.
The Guardian skýrir frá þessu og hefur eftir kvensjúkdómalækninum Marieke Schoonenberg að fjöldi „ofursæðisgjafa“ eigi að vera núll en hlutirnir hafi ekki verið gerðir eins og á að gera þá.
Flestir mannanna hafa „eignast“ 25-40 börn en sumir allt að 75.
Minnst 10 frjósemislæknar eru meðal gjafanna, meðal þeirra er hinn alræmdi Jan Karbaat, sem var viðriðinn stórt hneykslismál þegar upp komst að hann hefði „eignast“ að minnsta kosti 81 barn eftir að hafa notað eigið sæði á sinni eigin stofu.
Sá sem hefur „eignast“ flest börn er Jonathan Jacob Meijer sem hefur „eignast“ minnst 550 börn um allan heim.