Það er hægt að greiða aðganginn á vefsíðu borgaryfirvalda en sú breyting hefur verið gerð frá síðasta ári, að ef aðgangurinn er keyptur innan við þremur dögum fyrir komuna, þá hækkar gjaldið í 10 evrur.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá borgaryfirvöldum sem segja skattinum vera ætlað að hafa stjórn á flæði ferðamanna til borgarinnar. Þeim, sem ekki geta framvísað staðfestingu á að þeir eigi gistingu pantaða í borginni, er gert að borga þetta gjald.
Þeir sem gista í borginni eru undanþegnir skattinum og það sama á við íbúa í Veneto héraði, sem Feneyjar eru í, nemendur í háskóla borgarinnar og þeir sem eru að heimsækja ættingja sem búa í borginni.
Ef ferðamaður á gistingu bókaða í borginni, þá verður hann samt sem áður að skrá komu sína.
Sú breyting er einnig gerð frá síðasta ári að tímabilið, þar sem greiða þarf fyrir að heimsækja borgina, er lengra. Það nær nú yfir 54 daga, aðallega helgar, á tímabilinu frá 18. apríl til 27. júlí. Þetta eru næstum því tvöfalt fleiri dagar en á síðasta ári.
Þegar gjaldið hefur verið greitt, til dæmis í gegnum farsíma, fær fólk QR-kóða sem þarf síðan að sýna eftirlitsfólki sem verður á ferð í borginni.
Ef fólk lætur hjá líða að kaupa miða, á það á hættu að fá sekt sem getur verið á bilinu sem nemur 7.400 krónum til 46.000 króna og auk þess þarf þá að greiða aðgangseyrinn.