Hinn tíu ára gamli Ivan Vladimirovich er sagður vera mest einmana drengur Rússlands. Faðir hans er Vladimir Pútín Rússlandsforseti og sá á sér ófáa óvildarmenn. Öryggisverðir fylgja því Ivani litla hvert skref og hann er sagður hafa afar lítil samskipti við önnur börn.
Á dögunum birti Telegram-síðan VChK-OGPU, sem stjórnarandstæðingar halda úti, fyrstu opinberu myndina af Ivani litla en tilvist hans og Vladimir, fjögurra ára bróður hans, er haldið rækilegra leyndri. Daily Mail greindi frá.
Pútín hefur enda aldrei viðurkennt að vera faðir drengjanna enda heldur hann einkalífi sínu kyrfilega fyrir utan kastljós fjölmiðla. Hann er sagður hafa eignast drengina með fyrrverandi fimleikastjörnunni Alinu Kabaeva, sem er um þremur áratugum yngri en forsetinn. Á dögunum áttu sér hins vegar stað óvanaleg mistök en þá sagði Pútín njóta þess að horfa á ævintýramyndir með „stubbunum sínum“ og viðurkenndi þar með, að flestra mati, tilvist að minnsta kosti einhverra afkvæma.
Auk drengjanna tveggja, sem Pútín er sagður eiga, þá á hann einnig tvær dætur, Maríu og Katerínu, sem eru fæddar 1985 og 1986, með fyrrverandi eiginkonu sinni Lyudmilu Alexandrovnu Shkrebneva. Þá er Pútín einnig sagður hafa eignast lausaleiksdóttur, Ekaterinu Krivonogikh, árið 2003 með ástkonu sinni, Svetlöna Krivonogikh.